146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[19:01]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Þetta hafa verið virkilega athyglisverðar umræður. Segja má að þarna hafi loks Björt framtíð, VG og Framsókn fundið sameiginlegt hjarta slá í pólitík. Mig langar að benda á að ég hef skoðað þessi mál nokkuð vel og það land sem hefur rýmstu lagasetninguna í kringum þetta í nágrannaríkjum okkar er Bretland og þeir hafa líka náð mestu árangri. Þar hafa ótrúlega margir náð að hætta að reykja með aðstoð rafrettna eða með nikótíntyggjói eða einhverju slíku. Ég held að við ættum að líta til þeirra landa sem hafa náð árangri og setja ekki of þröngar skorður.

Þess ber að geta að það frumvarp sem við Píratar höfum lagt fram tekur á öllum þeim tilmælum sem koma frá EES í tengslum við að setja lög um þessa tegund hjálpartækja til að hætta að reykja, m.a. á mjög mörgu af því sem hér hefur verið rætt um að sé nauðsynlegt. Það er enginn á móti því að sett séu lög um rafrettur. Það sem við setjum okkur upp á móti er að þetta sé fellt undir tóbakslög.

Það er eitt sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra Óttar Proppé að: Ef þetta fellur undir tóbakslögin, þýðir það að þessi vara verði dýrari? Eru komnar einhverjar upplýsingar um hvernig eigi að setja það fram í reglugerð?

Síðan langar mig að spyrja. Ég hef bara séð rannsóknir sem benda til þess að þau ungmenni sem prófa rafrettur fari ekki að reykja venjulegar sígarettur. Ég hef ekki séð neinar rannsóknir sem styðja hinar fullyrðingarnar. Mig langar að benda á að forvarnir eru langbesta leiðin. Með því að fella þessa frábæru leið undir sömu lög og kvaðir og sígarettur erum um við um leið að búa til samasemmerki á milli rafrettna og sígarettna, búa til hugrenningatengsl á milli þessara tveggja hluta, sem er ekki gott ef helstu áhyggjur hæstv. ráðherra eru að ungmenni leiðist út í reykingar með því að prófa rafrettur.

Rökin fyrir því að hætta sé á að unglingar prófi eitthvað og því eigi að þrengja löggjöf eru að mínu mati skaðleg. Þetta eru sambærileg rök og áður fyrr þegar fólk var að reykja jónur og setti tóbak í þær; það þýddi ekki endilega að fólk færi að reykja sígarettur. Það var ekkert sérstakt orsakasamhengi þar á milli.

Mér finnst líka mjög mikilvægt þegar talað er um tölfræði að benda á að það er staðreynd að mjög margir deyja af völdum reykinga og verða fyrir miklu heilsutjóni. Það er ekki til nein tölfræði eða neinar rannsóknir sem sýna fram á neitt í líkingu við það við að nota rafrettur. Það hafa komið fram mjög margar ítarlegar rannsóknir undanfarið sem sýna fram á að rafrettur, eða eimvélar, eru 95% skaðminni en sígarettur. Því hlýtur maður að spyrja sig: Af hverju gerum við ekki allt sem við getum til að tryggja alvöru skaðaminnkun? Af hverju er svona ofboðslega einhliða sýn í þessu frumvarpi þar sem ekki er tekið tillit til viðurkenndra rannsókna heldur einvörðungu mjög einhliða? Mér finnst þetta mjög „biased“, mjög furðulegt hvernig þetta er sett upp. Ég vona að þegar nefndin hefur þetta mál hjá sér muni hún styðjast við og skoða þær fyrirliggjandi rannsóknir sem er mjög auðvelt að veita þingmönnum aðgengi að.