146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[19:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir mjög góða og innihaldsríka umræðu í dag. Það eru ýmis sjónarmið sem komið hafa upp. Ég get tekið undir mörg þeirra þótt ég sé ekki fullkomlega sammála þeim öllum. Ég ætla nú í lokin að reyna aðeins að svara spurningum sem til mín hefur verið beint og tæpa á örfáum atriðum áður en við felum málið hæstv. velferðarnefnd til umfjöllunar.

Svo ég reyni að svara spurningum sem síðasti ræðumaður, hv. 3. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, Birgitta Jónsdóttir, beindi til mín í síðustu ræðu sinni, er þar fyrst til að taka hvort það að fella rafsígarettunotkun undir tóbaksvarnalögin geri það að verkum að varan verði dýrari en ella. Því er til að svara að ekki er gert ráð fyrir því í þessum frumvarpi að varan verði dýrari. Eini kostnaðurinn sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu er að Neytendastofa megi leggja á gjald fyrir tilkynningar. Eins og gengur með slíkt gjald er það fyrst og fremst hugsað til að standa straum af kostnaði við tilkynningar, við vinnu, rekstur og heimasíðu sem gefur upplýsingar og uppfærir þær um hverjir hafa tilkynnt um vöru og uppfyllt skilyrði. Það er kvöð úr Evróputilskipuninni um að halda úti slíkri heimasíðu. Það er í raun og veru öryggissjónarmið. Það er eina gjaldtakan sem lögð er til í frumvarpinu. Ekki er tekin afstaða til þess að varan sé skattlögð neitt umfram aðra venjulega neysluvöru, þ.e. það er bara virðisaukaskattur og slíkt.

Sömuleiðis spurði hv. þingmaður um hvaða rannsóknir lægju fyrir um að regluleg notkun á rafsígarettum leiddi til reykinga. Eins og ég sagði í ræðu minni eru rafsígarettur tiltölulega ný vara. Rannsóknir eru í gangi og niðurstöður eru að koma. Þær eru vissulega misvísandi. En þær sem við höfum helst stuðst við í þessari vinnu eru sömu rannsóknir og liggja til grundvallar í tilskipun Evrópuþingsins, þær rannsóknir sem nágrannalöndin hafa stuðst við, en ekki síst álit Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar, sem við tökum mikið mark á og hefur þá vinnureglu að upplýsingar þeirra séu byggðar á ritrýndum upplýsingum og rannsóknum.

Í grunninn er hugsunin að þó svo að þetta sé ný aðferð og allt önnur og vissulega eðlisótengd tóbaksreykingum sé um að ræða nýja leið til að neyta nikótíns, sem er sannarlega lyf sem veldur mikilli fíkn, lyf sem er sannarlega skaðlegt. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sérstaklega lagt áherslu á neikvæð áhrif nikótíns á ungt fólk og fóstur þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á slæm áhrif á þroska heila hjá ungu fólki. En einnig leggur stofnunin mikla áherslu á neikvæð áhrif nikótíns á hjarta- og æðakerfi einstaklinga. En það er kannski sá fylgikvilli reykinga sem við hugsum sjaldnar um en krabbameinstengingarnar en eru eigi að síður stórt heilsufarslegt vandamál sem við erum að einhverju leyti að reyna að svara.

Hv. þingmaður beindi því til mín í lokin, og fleiri þingmenn hafa gert það í umræðunni, af hverju hér sé lagt fram frumvarp sem banni eða takmarki notkun á rafsígarettum og áfyllingarílátum þeim tengdum. Því er til að svara að hér er vissulega verið að leggja fram frumvarp um reglur sem halda utan um þessa neyslu en strangt til tekið er verið að heimila nikótínvökva sem ekki hefur í raun og veru verið nein umgjörð utan um í íslenskum lögum. Hins vegar eru það, eins og ég sagði áður í fyrstu ræðu minni, lýðheilsusjónarmið sem hvetja mig sem ráðherra lýðheilsumála á Íslandi til að leggja fram þetta frumvarp. Það er fyrst og fremst hugsað til þess að koma í veg fyrir nýgengi notkunar, sérstaklega hjá ungmennum og börnum, en um leið að tryggja aðgengi að rafsígarettum og nikótínvökva fyrir þá sem vilja nýta sér slíkt, ekki síst þá sem vilja nýta sér slíkt í skaðaminnkandi tilgangi, til að hætta tóbaksnotkun eða reykingum. Þess var gætt við smíði frumvarpsins að aðgengið og umgjörðin væru ekki strangari en í kringum tóbaksnotkun.

Svo ég reyni að renna hratt yfir aðra punkta þá minntist hv. þm. Andri Þór Sturluson á samráð, að hann væri ekki ánægður með að samráð hefði verið haft við ÁTVR. Því er til að svara að reynt var að hafa breitt samráð við undirbúning og ritun frumvarpsins. Það var sérstaklega birt og kallað eftir athugasemdum og umsögnum meðal almennings og almennt áður en frumvarpið var klárað og lagt inn til þingsins. ÁTVR var vissulega einn af samráðsaðilunum. Niðurstaðan var nú engu að síður sú að mæla ekki með því að rafsígarettur og skyld efni yrðu afgreidd eða takmörkuð við verslun og dreifingu ÁTVR heldur yrði farin sú leið að dreifingin yrði almenn, það yrði bara tilkynningarskylda til Neytendastofu til að uppfylla öryggisstaðla.

Ég geri mér ágætlega grein fyrir frumvarpi sem þingmenn Pírata og hv. þm. Birgitta Jónsdóttir hafa lagt fram hér á þinginu um rafrettur. Ástæðan fyrir því að við hjá ráðuneytinu tókum þá ákvörðun að leggja þetta frumvarp fram sem hluta af tóbaksvarnalögum var fyrst og fremst til að fylgja því fordæmi sem flestar þjóðir í nágrannalöndum okkar hafa gert, þ.e. að hafa þetta undir lögum um tóbak og skyldar vörur, eins og það er gjarnan orðað. Það er líka gert til að tengja við Evróputilskipunina sem við erum að svara að nokkru leyti með þessu frumvarpi. Þarna erum við líka að fylgja tilmælum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, frá Félagi íslenskra lungnalækna, Krabbameinsfélagi Íslands, Krabbameinsfélagi Reykjavíkur og fleiri aðila, fyrirmynda frá Noregi o.s.frv., um að hafa þessa tengingu. Það er nú kannski fyrst og fremst þess vegna sem frumvarp ráðherra gerir ráð fyrir að þetta falli undir tóbaksvarnalög. Frumvarp Pírata er um margt líkt þessu frumvarpi varðandi utanumhald og öryggismál en mér er skylt að nefna að þar eru takmarkanir á stærðum íláta o.s.frv. ekki í samræmi við Evróputilskipunina. Þær takmarkanir sem eru í frumvarpinu sem við leggjum fram hér eru í takti við Evróputilskipunina. Það eru nú ekki flóknari vísindi á bak við það.

Ég held að ég sé búinn í það minnsta að skauta yfir það helsta sem ég hef skrifað hjá mér í umræðunni. Ég vil ítreka þakkir fyrir góða og málefnalega umræðu og fagna því að hæstv. velferðarnefnd fái gott veganesti til umfjöllunar sinnar. Ég hlakka til að fá að fylgjast með störfum nefndarinnar og áframhaldi málsins.