146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[19:19]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Því er í fyrsta lagi til að svara að í raun og veru er verið að auka aðgengi að nikótínvökva í rafsígarettum vegna þess að eftir því sem ég best veit hefur ekki verið sótt um leyfi fyrir slíkum vökva samkvæmt núgildandi lögum eða reglum um nikótín. Það er í raun verið að leyfa rafsígarettur og nikótínvökva á Íslandi en um leið að tryggja öryggi neytenda með því að setja reglur um styrkleika vörunnar, um merkingar o.s.frv.

Varðandi söluaðgengið er vissulega verið að þrengja að því að einhverju leyti, sérstaklega þegar kemur að aðgengi barna og ungmenna. (JÞÓ: Neysluaðgengi.) En þó er sérstaklega horft til þess að aðgengi að þessari vöru sé ekki verra en að tóbaki. Með neysluaðgengið, þ.e. möguleika til að nota vöruna, er horft til svipaðrar stöðu og við notkun tóbaks, þ.e. innan dyra á opinberum stöðum og svo framvegis. Það er í samræmi við þær reglur sem nokkurn veginn öll önnur lönd hafa sett, sem hafa sett reglur um rafsígarettur. Þær eru hugsaðar til þess, aftur, að verja þá sem ekki neyta. Rannsóknir sýna m.a. að nikótín mælist í þvagi hjá þeim sem hafa stundað óbeinar gufureykingar. Þær benda til þess að ástæða sé til að hlusta á Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina um það að takmarka óbeint aðgengi. Að verðinu verð ég að koma í seinna andsvari.