146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[19:21]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi verðið, í gögnum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni þegar kemur að neyslu áfengis og þeim ráðleggingum sem hún gefur þar er talað um það sem er kallað „cost effective“ eða hagkvæmast. Þú færð mest áhrif fyrir sem minnsta peninga með því að hafa áhrif á aðgengi og verð og að takmarka auglýsingar. Auðvitað er hagkvæmast að setja bara reglur og banna og takmarka og skattleggja o.s.frv., því að við fáum peninga fyrir það og það eru aðrir sem borga. Þetta er tiltölulega hagkvæm leið. Þá er það spurningin: Er þetta hagkvæmasta leiðin, að fara þá leið sem lögð er til í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar? Mér heyrist hæstv. ráðherra sjálfur hlusta á það sem almennt er að gerast, eins og skynsamlegt er, og fylgja því sem almennt er reyndin. En er hann meðvitaður um undirliggjandi gögn málsins, þ.e. áhrifin, hafa upplýsingar um þessa neyslunálgun verið skoðaðar? Um leið og þú setur vöruna undir tóbaksvarnalög máttu ekki fá þér nikótín innan dyra. Þá er hún komin í miklu harðari samkeppni þegar maður þarf að fara út úr húsi og þarf að leita eftir því. Er þetta í gögnunum?

Og aftur að verðinu. Ef frumvarpið er samþykkt, getur ráðherra eða ráðuneyti eða undirstofnanir þar, án samráðs við ráðherra, hækkað verðið? Verð hefur gríðarleg áhrif á neyslu fólks á vöru, jafnvel þótt það séu fíkniefni. Við sjáum það með áfengi. Um leið og verðið lækkar um 10% eykst neysla um 4%. Það eru mikil samlegðaráhrif þarna. Hver eru samlegðaráhrifin í þessu máli? Getur ráðuneytið hækkað verðið í framhaldinu?