146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[19:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur andsvarið. Það er alveg laukrétt sem þingmaðurinn segir, þetta frumvarp er lagt fram byggt á upplýsingum sem koma víða að. Það er alls ekki svo að þetta sé sérstakt einkaáhugamál ráðherrans. Þvert á móti. Það er verið að horfa á miklu stærri lýðheilsuleg áhrif.

Hvort það að setja vöruna undir tóbaksvarnalög geri að verkum að settar verði takmarkanir á sýnileika vörunnar, auglýsingar, takmarkanir á notkun, þ.e. hvar megi nota vöruna: Nei, það kemur ekki til vegna þess að verið sé að setja þetta undir tóbaksvarnalög, þetta er ákvörðun um, eins og ég minntist á áðan, að reyna að takmarka notkun og áhrif á aðra.

Þegar kemur að skaðaminnkuninni er mikilvægt og kemur fram í greinargerð frumvarpsins að við viðurkennum skaðaminnkunarhlutverk rafsígarettna fyrir þá sem eru að reyna að hætta að reykja. Það sem við höfum áhyggjur af er nýgengi þeirra sem ekki hafa reykt og möguleikunum á að sérstaklega ungmenni ánetjist nikótíni í gegnum þessa aðferð. Ísland er nú þegar með eitthvert lægsta hlutfall reykinga í þeim löndum sem við miðum okkur við. Það er í raun komin ástæða til að hafa áhyggjur af hinu. (JÞÓ: Verð.)

Til þess að koma að verðinu: Já, það er ekki gert ráð fyrir að það sé neitt íþyngjandi í frumvarpinu sem kemur að verði. Það er ekki heimilt að leggja sérstaklega á skatta eða hækka verð á vörunni nema þá með aðkomu Alþingis. Það er ekki gert ráð fyrir möguleika á því í þessu frumvarpi.