146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

bann við tilteknum frammistöðubætandi efnum og lyfjum.

432. mál
[19:55]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf) (andsvar):

Það er tilgangur með frumvarpinu að koma í veg fyrir dreifingu. Vissulega er varsla hluti af dreifingu, innflutningi, útflutningi, sölu og kaupum o.s.frv. En frumvarpinu er fyrst og fremst beint að dreifingu og innflutningi, að það verði viðmiðið þegar sett verði fram sektar- og fangelsisákvæði. Tekið er fram í frumvarpinu að ætlast sé til að síðan verði lögð fram reglugerðarheimild, svo að ég lesi upp úr 4. gr., með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð að efni eða lyf, sem ekki eru tilgreind í 1. gr. en hætt er við að verði misnotuð vegna eiginleika þeirra til að bæta líkamlega frammistöðu, skuli lúta sömu takmörkunum og um getur í 2. gr. Þá getur ráðherra í reglugerð kveðið nánar á um heimild Lyfjastofnunar til að veita undanþágur skv. 2. gr.“

Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst sá að koma í veg fyrir dreifingu. Auðvitað er það í grunninn til að reyna að sporna við notkun á efnum sem hafa óæskileg og hættuleg áhrif. En sektar- og fangelsisákvæðum er fyrst og fremst beint að innflutningi, útflutningi, framleiðslu o.s.frv.