146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

sjúklingatrygging.

433. mál
[20:23]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka ráðherranum. Ég held að hann hafi misskilið mig aðeins. Það hafa verið tafir. Ég veit að málum hefur fjölgað hjá Sjúkratryggingum, í dómskerfinu, og að finna þarf út úr því hvernig hægt sé að stemma stigu við fjölda slíkra mála. En það kemur fram að miklar tafir hafi orðið í afgreiðslu mála hjá Sjúkratryggingum Íslands vegna þess að erfitt hafi verið að fá gögn í málum afhent svo að hægt hafi verið að ljúka afgreiðslu. Þess vegna hafa þeir sem hafa átt rétt á bótum fengið þær greiddar seinna en eðlilegt getur talist. Ríkið hefur þá þurft að gjalda fyrir með auknum vaxtakostnaði. Nú eru sett ný lög til að skerpa á, átta vikna frestur gefinn. En ég velti því fyrir mér hvað það hafi verið sem olli því að tafirnar hafa í gegnum tíðina verið svona miklar og hvort þessi frestur breyti einhverju þar um. Var um slugs að ræða? Hvað varð til þess að þetta gerðist? Af hverju ætti þetta að breytast? Eru viðurlög við því ef þeir aðilar sem eiga að skila gögnum innan átta vikna gera það ekki? Hvað þá? Þá erum við á sama stað.

Hvað hefur valdið því að Sjúkratryggingar Íslands, opinbert apparat, hefur ekki fengið viðunandi gögn til að geta úrskurðað í málum þannig að fólk fái greitt vegna slíkra atvika?