146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017--2021.

434. mál
[20:34]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í frumvarpið. Í II. lið þingsályktunartillögunnar er að finna sundurliðun á þeim verkefnum sem áætluninni er ætlað að ná til. Í mörgum tilvikum er tilgreindur kostnaður við hvern lið. En fjölmargir liðir eru þó þannig að kostnaðarmat á að fara fram seinna. Sem dæmi um kostnaðarmat sem þegar hefur farið fram má nefna að árið 2018 verða veittar 3 millj. kr. til verkefnis um starfsstöð fyrir auðlesinn texta, 5 millj. kr. á ári verða veittar til þjónustu við fötluð börn með sértækar þarfir í nærumhverfi þeirra og 2 millj. kr. verða veittar til fræðsluefnis vegna betri atvinnumöguleika fatlaðs fólks.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þær fjárhæðir sem ætlaðar eru til verkefna gefi raunhæfa mynd af þörfum þeirra verkefna sem rætt er um og hvort þessar upphæðir séu nægilegar.