146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

stefna og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017--2021.

434. mál
[20:58]
Horfa

Bjarni Halldór Janusson (V):

Frú forseti. Það er ótrúlega mikilvægt að efla þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu. Það er líklegast ein besta leiðin til að tryggja réttindi þeirra. Ég hef sjálfur starfað við félagslega liðveislu í fjögur, fimm ár og þekki til þess að það er ótrúlega mikilvægt að koma með öfluga félagslega þjónustu og það gerir heilmargt fyrir þennan hóp. Það er ein besta leiðin til slíks er með styrkveitingum og góðri hvatningu.

Það er tvennt sem mig langar að vekja athygli hér á sem ég er einstaklega ánægður með og vona að það verði áfram og verði fjármagn til fyrir. Það er annars vegar, með leyfi forseta:

„Í dag á fatlað fólk ekki rétt á styrkjum til endur- og símenntunar á fullorðinsárum eins og aðrir eiga í gegnum sjóði stéttarfélaga. Mikilvægt er að fatlað fólk eigi möguleika á að stunda nám á fullorðinsaldri. Koma þarf á starfs- og endurmenntunarsjóði sem gegni sama hlutverki og slíkir sjóðir hjá stéttarfélögum og lífeyrissjóðum og veiti styrki til fatlaðs fólks sem ekki á slík réttindi annars staðar. Búa þarf til samstarfsvettvang atvinnulífs, stéttarfélaga og fatlaðs fólks.“

Hins vegar, með leyfi forseta:

„Það myndi létta mjög á biðlistum eftir húsnæði ef mögulegt væri að fá styrki til breytinga á húsnæði vegna fötlunar. Til að svo megi verða þyrfti að fjármagna sjóð sem hægt væri að sækja í. Eðlilegast væri að slíkur sjóður væri samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga þar sem húsnæðisuppbygging er einnig samstarfsverkefni þessara aðila. Einnig væri eðlilegt að stéttarfélög og lífeyrissjóðir kæmu að slíku verkefni.“

Mig langaði aðallega að koma með innlegg og hve mikilvægur hluti þetta er áætluninni.