146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð á vinnumarkaði.

435. mál
[21:11]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Mig langar líka til að nefna að í 2. gr. frumvarpsins er lífaldur sérstaklega nefndur sem eitt þeirra atriða sem ekki megi mismuna gegn. Samkvæmt frumvarpinu er gildistöku þeirra ákvæða er snúa að mismunun vegna aldurs þó frestað til 1. júlí 2019. Í greinargerð kemur fram að það sé gert svo hægt sé að fara yfir önnur lög og reglugerðir og gera breytingar á þeim til að uppfylla ákvæðið. Ég er forvitin að vita hvort það myndi þýða að felld verði úr gildi umdeild ákvæði reglugerðar um innritun í framhaldsskóla sem takmarka gríðarlega tækifæri þeirra sem eru eldri en 25 ára til að afla sér menntunar á framhaldsskólastigi. Það væri óskandi.