146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

436. mál
[21:13]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um heildarlöggjöf um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Er þetta í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að jafnrétti í víðtækri merkingu sé órjúfanlegur þáttur í réttlátu og sanngjörnu samfélagi. Jafnframt segir að Ísland eigi að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilji taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar. Mannréttindi, jöfn tækifæri, fjölbreytni, frelsi og ábyrgð ásamt virðingu fyrir ólíkum lífsskoðunum myndi þar sterkan grunn. Enn fremur kemur fram að innflytjendum skuli auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi.

Með frumvarpi þessu er lagt til að í íslenskri löggjöf verði kveðið á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins utan vinnumarkaðar. Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið gildi um jafna meðferð á vinnumarkaði þar sem ég mun samhliða þessu frumvarpi leggja fram og hef þegar mælt fyrir sérstöku frumvarpi þar að lútandi.

Í því skyni að tryggja jafna meðferð fólks í íslensku samfélagi er með frumvarpi þessu lagt til að skýrt verði kveðið á um að mismunun á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna, hvort heldur bein eða óbein, sé óheimil. Með skýru banni gegn mismunun er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna sem og að koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum. Frumvarpinu er jafnframt ætlað að vera liður í að hindra að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur. Verða þetta að teljast nýmæli í lögum enda þótt öðrum ákvæðum innlendra laga sé einnig að ákveðnu leyti ætlað að tryggja jafna meðferð á tilteknum sviðum samfélagsins, það með talið 65. gr. stjórnarskrárinnar og tiltekin ákvæði almennra hegningarlaga og stjórnsýslulaga. Enn fremur hafa íslensk stjórnvöld fullgilt milliríkjasamninga sem ætlað er að stuðla að jafnri meðferð í samfélaginu, en þar má nefna mannréttindasáttmála Evrópu, samning Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samning Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og félagsmálasáttmála Evrópu.

Frumvarpi þessu er meðal annars ætlað að gilda um félagslega vernd, þar á meðal almannatryggingar og heilbrigðisþjónustu, félagsleg gæði, menntun og aðgang að eða afhendingu vöru sem og þjónustu. Frumvarpinu er jafnframt ætlað að gilda um húsnæði sem í boði er fyrir almenning. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins eigi við um viðskipti á sviði fjölskyldu- og/eða einkalífs.

Með félagslegum gæðum í frumvarpinu er meðal annars átt við tækifæri til að njóta tiltekinna gæða á vegum opinberra aðila eða einkaaðila, svo sem aðgangs að stöðum sem ætlaðir eru almenningi, hvort heldur innan dyra eða utan, þar sem til dæmis er unnt að njóta frístunda eða sækja menningar- og listviðburði. Er í þessu sambandi jafnframt átt við afslátt eða tilboð sem gildir um aðgang að slíkum stöðum eða viðburðum. Miðað er við að framangreint eigi við um alla staði sem ætlaðir eru almenningi, hvort sem viðkomandi staður telst vera opinber staður eða í einkaeigu, en stundum er talað um almannarými í þessu samhengi. Enn fremur má nefna aðgang að almenningssamgöngum, niðurgreiddar máltíðir í skólum sem og niðurgreidd leikskólagjöld.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að fyrirmæli um mismunun vegna kynþáttar og þjóðernisuppruna teljist mismunun í skilningi frumvarpsins og þar með óheimil. Sama á við um áreitni þegar hún tengist kynþætti eða þjóðernisuppruna. Gert er ráð fyrir í frumvarpinu að heimilt verði að beita sérstökum, tímabundnum aðgerðum sem ætlað er að bæta stöðu einstaklinga sem standa höllum fæti á ákveðnum sviðum vegna kynþáttar eða þjóðernisuppruna.

Frumvarp þetta hefur ekki áhrif á mismunandi meðferð sem viðhöfð er á grundvelli ríkisfangs eða ríkisfangsleysis, svo sem á grundvelli laga nr. 80/2016, um útlendinga, með síðari breytingum, og laga nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, með síðari breytingum. Ekki er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarps þessa gildi um slíka mismunandi meðferð ef meðferðin byggist eingöngu á ríkisfangi viðkomandi. Ef meðferðin byggist hins vegar á kynþætti eða þjóðernisuppruna viðkomandi er gert ráð fyrir að ákvæði frumvarpsins gildi og viðkomandi njóti þannig verndar samkvæmt þeim.

Gert er ráð fyrir að yfirstjórn og stjórnsýsla mála samkvæmt frumvarpi þessu sé hin sama og gildir á sviði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ráðherra jafnréttismála fari því með yfirstjórn mála sem þetta frumvarp tekur til og Jafnréttisstofa annist stjórnsýslu í tengslum við framkvæmd þess verði það að lögum. Auk þess er lagt til að unnt verði að leita atbeina kærunefndar jafnréttismála ef talið er að ákvæðin hafi verið brotin og er gert ráð fyrir að hlutaðeigandi ákvæði, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, taki gildi í því sambandi eftir því sem við getur átt.

Við gerð frumvarpsins var höfð hliðsjón af tilskipun ráðsins 2000/43/EB frá 29. júní, um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis að því er varðar réttindi og skyldur utan vinnumarkaðar. Þar sem tilskipunin er ekki formlega hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er ekki um eiginlega innleiðingu á henni að ræða í íslenskan rétt heldur er þess gætt með frumvarpi þessu að efnislegt samræmi sé í íslenskum rétti og þeim rétti sem gildir innan Evrópusambandsins á grundvelli umræddrar tilskipunar. Er það í samræmi við samþykkt ríkisstjórnar Íslands frá janúar 2003 og staðalskjal sem sent var til EFTA-skrifstofunnar í febrúar 2003 þar sem tilkynnt var að íslensk löggjöf yrði löguð að efni tilskipunarinnar til að tryggja einsleitni á innri markaði.

Einnig er rétt að geta þess að mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna og sérfræðinganefnd félagsmálasáttmála Evrópu gera ríka kröfu til íslenskra stjórnvalda um að löggjöf um bann við mismunun á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna verði sett hér á landi. Enn fremur má geta þess að Norðurlöndin og flestöll Evrópuríki hafa innleitt umrædda tilskipun eða endurspeglað efni hennar í landsrétti sínum. Má því segja að Ísland sé orðið verulegur eftirbátur annarra vestrænna ríkja þegar kemur að vernd einstaklinga gegn mismunun.

Virðulegur forseti. Með frumvarpinu er verið að veita einstaklingum sem telja sér mismunað á grundvelli kynþáttar og þjóðernisuppruna aukna réttarvernd, en nýlegar rannsóknir og kannanir benda til þess að fólk af erlendum uppruna upplifi fordóma og mismunun í daglegu lífi hér á landi. Enn fremur er með frumvarpinu verið að veita í fyrsta skipti hér á landi einstaklingum, sem telja sér mismunað á grundvelli kynþáttar eða þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar, heimild til að leita réttar síns til úrskurðarnefndar innan stjórnsýslunnar. Þannig er frumvarpinu ætlað að stuðla að auknu jafnrétti í samfélaginu.

Þau sjónarmið hafa heyrst að ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar eigi að teljast fullnægjandi til að tryggja jafnan rétt. Vissulega er jafn réttur í það minnsta að stórum hluta tryggður þar en einnig er mikilvægt að horfa til þess að í alþjóðlegum samanburði er Ísland dregið niður þegar kemur að málefnum innflytjenda þar sem mismununarlöggjöf sem þessi sé ekki fyrir hendi. Enn sem komið er er Ísland langt í frá á pari við hin Norðurlöndin hvað varðar hinn svokallaða MIPEX-mælikvarða sem mælir hversu vinveitt ríki eru gagnvart innflytjendum. Svíþjóð er þar í fyrsta sæti en Ísland í 23. sæti ásamt Tyrkjum, Ungverjum og Rúmenum. Er þá einnig rétt að hafa í huga að kannanir sýna að innflytjendur hér á landi upplifa ákveðna fordóma og mismunun sem ætlunin er að taka á með löggjöf þessari.

Frú forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginatriðum frumvarpsins og leyfi mér að leggja til að frumvarpinu verði vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.