146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

436. mál
[21:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ræðuna. Margt áhugavert kom þar fram og fullt af hlutum sem ég hafði ekki hugmynd um; það þarf nú reyndar ekki mikla speki til að svo verði þegar að mér kemur. En varðandi þessa lista sem hv. þingmaður kom inn á, þar sem Ísland er í neðsta sæti þegar kemur að málum þessum tengdum, finnst mér athyglisvert að heyra þar um. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég er mjög ánægður og þakka hæstv. ráðherra fyrir að mæla fyrir þessu frumvarpi. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um að við tikkuðum í 50% einhverra boxa þegar kæmi að alþjóðlegum listum með þessu frumvarpi. Ég tek undir með hv. þingmanni að það er mjög gott til að stíga fyrsta skrefið í þessu.

Nú háttar þannig til að þetta er frumvarp sem á eftir að fara í gegnum þinglega meðferð, til allsherjar- og menntamálanefndar, ef ég tók rétt eftir, þar sem hv. þingmaður situr, og kæmi mér ekki á óvart að hann fengi þar stuðning ýmissa annarra fulltrúa ef hann teldi rétt að gera breytingar á frumvarpinu sem gengju enn lengra í þá átt sem hann talaði hér um. Hv. þingmaður talaði um mismunun varðandi trú, lífsskoðun og ríkisfang o.fl. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hyggist leggja til einhverjar þær breytingar á frumvarpinu svo að það gangi enn lengra en það gerir nú þegar og verði jafnvel í samræmi við það sem hann lýsti að best gerðist þar sem hv. þingmaður þekkir til úti í heimi.