146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.

436. mál
[21:37]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það var gott og skynsamlegt. Ég held einmitt að í öllum málum sé mjög gott að hlusta á það sem umsagnaraðilar segja. Ætla ég ekki að veifa hér öðrum málum af skepnuskap mínum, um það sérstaklega hvar væri gott að hlusta þegar umsagnir eru nánast allar á einn veg. Ég er nefnilega ekki hér til að reyna að vera með nein leiðindi heldur hef ég raunverulegan áhuga á þessu máli og þeim upplýsingum sem komu fram í máli hv. þingmanns. Ég hvet hv. þingmann til þess, í störfum sínum í allsherjar- og menntamálanefnd, að vinna að því þar, fá jafnvel einhvern til liðs við sig þar, og leggja fram breytingartillögur við málið þegar það kemur til frekari afgreiðslu í þingsal. Málið eins og það er núna er þá ákveðið gólf. Það er þá aldrei nein hætta á öðru en að það verði samþykkt. En síðan væri hægt að leggja fram breytingartillögur sem gengju enn lengra í þá átt sem hv. þingmaður hefur lýst hér ágætlega, hvernig best væri að yrði. Þó að svo færi að þær tillögur yrðu felldar værum við þá alltaf með frumvarpið eins og það liggur fyrir núna. Afsakið ræskingarnar, ég er að smitast af því sem hæstv. ráðherra átti við að stríða hér, hvort það var fyrr í dag eða í gær, tíminn líður skringilega í þessum sal. En já, ég bara enda mál mitt með þessu. Ég hvet hv. þingmann til að leggja fram slíkar breytingartillögur. Frumvarpið nær þá í það minnsta alltaf óbreytt fram að ganga fari svo að þær verði felldar. Ég hefði áhuga á að geta greitt atkvæði um slíkar breytingartillögur.