146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[21:57]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka undir orð annarra hv. þingmanna um staðalinn, það er slæmt að hafa ekki aðgang að honum til að geta skoðað hann og greint hvað vantar eða eitthvað annað.

Mig langar að spyrja um þessa tölu, 25 eða fleiri. Nefnt er hversu mikið af fyrirtækjum það nái til, en fylgir þessu mögulega einhver fælingarmáttur eða kvöð fyrir fyrirtæki sem eru undir þessu marki að ráða til sín starfsmenn til að hafa 25 starfsmenn eða fleiri? Það gæti falist í því ákveðinn fælingarmáttur fyrir þau að fara yfir í þann starfsmannafjölda til þess því að þá myndi jöfnunarstaðallinn þurfa að gilda.

Nær frumvarpið ekki örugglega yfir jafna stöðu innan kyns, þ.e. að einn karl hafi sömu laun og annar karl eða ein kona hafi sömu laun og önnur? Á það við um vinnustaði þar sem einungis annað kynið starfar? Gæti það jafnvel komið í veg fyrir að vinnustaðir ráði hitt kynið líka til starfa?