146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:02]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að taka undir áhyggjur sem komu fram í umræðum um fundarstjórn forseta um staðalinn sem liggur að baki jafnlaunavottuninni. Nú liggur fyrir að staðlarnir sem Staðlaráð Íslands býr til eru ekki aðgengilegir almenningi nema gegn greiðslu og umræddur staðall fylgir því ekki frumvarpinu. Það hlýtur að þykja furðulegt að ætlast til þess að Alþingi samþykki lög án þess að í ljós komi nákvæmlega hvað er verið að samþykkja.

Það kom fram í grein sem birt var í Kvennablaðinu 12. apríl að velferðarráðuneytið hafi svarað fyrirspurn um birtingu staðalsins á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta:

„Staðlaráð Íslands gaf út staðallinn Jafnlaunakerfi ÍST 85:2012 og áskilur ráðið sér öll réttindi varðandi hann. Í staðlinum er tekið fram eftirfarandi: ,,Án skriflegs leyfis útgefanda má ekki endurprenta eða afrita þennan staðal með neinum hætti, vélrænum eða rafrænum, svo sem ljósritun, hljóðritun eða annarri aðferð sem nú er þekkt eða verður síðar fundin upp, né miðla staðlinum í rafrænu gagnasafni“. Því getur ráðuneytið ekki birt staðalinn en tekið skal fram að hægt er að kaupa hann hjá Staðlaráði Íslands.“

Hvernig rímar það við hugmyndafræði hæstv. ráðherra um að opna á (Forseti hringir.) gegnsæi í stjórnsýslu sem kveðið er á um í grunnstefnu Viðreisnar (Forseti hringir.) að setja lög sem byggja á reglum sem ekki verða gerðar opinberar almenningi?