146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:06]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar fyrri spurningu hv. þingmanns um það hvort aðrar leiðir hafi verið mögulegar þá mætti vafalítið mætti já, vegna þess að hér er um frumkvöðlastarf að ræða. Þessi staðall er einsdæmi. Við erum að feta algjörlega nýja slóð og þessi aðferðafræði er auðvitað smíðuð hér á landi. Sú aðferðafræði var valin einmitt af þessari ástæðu, að nota aðferðafræði gæðastaðla til að tryggja ákveðna skilvirkni í vinnubrögðum og líka til að hægt sé að yfirfæra þetta yfir til annarra ríkja ef áhugi er fyrir, þannig að þetta er sú leið sem varð fyrir valinu. Ég held að hún sé ákaflega góð og við séum með ákaflega öflugt og gott tæki í höndunum.

Hvað varðar möguleika Staðlaráðs Íslands til þess að breyta staðlinum er því einfaldlega háttað svo að Staðlaráð er vissulega eigandi staðalsins en velferðarráðuneytið er aftur eigandi og ábyrgðaraðili þeirra krafna sem í honum eru gerðar. Staðlinum verður því ekki breytt án aðkomu ráðuneytisins.