146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu seinna andsvari langar mig að spyrja ráðherrann tveggja spurninga. Hann sagði í flutningsræðu sinni að hér væri aðferð sem sýnt hefði verið fram á að virkaði. Í greinargerð er talað um að þær breytingar sem hér eru lagðar til séu til þess fallnar að draga úr kynbundnum launamun. Mig langar einfaldlega að spyrja hversu mikið er áætlað að kynbundinn launamunur muni minnka í prósentum talið þar sem prósentur eru notaðar í greinargerðinni til að útskýra kynbundinn launamun. Í öðru lagi langar mig að spyrja hversu mörg fyrirtæki sinna í dag þeirri vottun sem hér er verið að lögbinda og hvort hætta sé á því að við lendum í fíaskó eins og gerðist þegar rafræn skilríki voru innleidd og á sama tíma færð í hendur einkaaðila úti í bæ sem gátu þar með grætt ansi hressilega á nauðsynlegri þjónustu.