146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:35]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Það er mjög ánægjulegt að standa í þessum sal og ræða frægasta frumvarpið, frægustu lög sem aldrei voru lögð fram fyrr en þau voru loksins lögð fram sem frumvarp. Þetta var rætt mikið á heimsvísu áður en þingið fékk málið til umfjöllunar og hér erum við loksins að ræða frumvarp til laga um jafnlaunavottun.

Eins og fram kom fyrr í kvöld bý ég svo vel að hafa undir höndum eina eintak þingsins af þeim staðli sem við erum hér að innleiða, upplýsingar sem sumir myndu nú telja nauðsynlegar til að fjalla um málið. Ég ætla að lesa hér upp örlítið úr honum, (Gripið fram í.)ég ætla að lesa úr kafla 4.3, um skipulagningu, undirkafla 4.3.1, um jafnlaunaviðmið, með leyfi forseta:

„Fyrirtækið skal skilgreina öll störf og koma upp, innleiða og viðhalda verklagsreglum

a. til að ákvarða þau viðmið sem lögð skuli til grundvallar flokkunar starfa og skulu viðmiðin ákveðin út frá þeim kröfum sem störf gera til starfsmanna,

b. til að flokka öll störf samkvæmt ofangreindum viðmiðum þannig að saman flokkist sömu eða jafn verðmæt störf,

c. til að ákvarða laun og önnur kjör fyrir hvert starf á grundvelli hinna skilgreindu viðmiða,

d. til að ákvarða hvort og þá hvernig er umbunað fyrir einstaklingsbundna og hópbundna þætti. Fyrirtækið skal skjalfesta og uppfæra þessar upplýsingar. Fyrirtækið skal tryggja að viðmiðin séu ávallt málefnaleg og viðeigandi.“

Þar með lýkur undirkafla 4.3.1 um jafnlaunaviðmið. Eins og þingheimur heyrir þá er þetta allt býsna skynsamlegt. Þetta er í grunninn bara gæðakerfi utan um það hvernig fyrirtæki ákvarða laun.

Ég velti fyrir mér, mér datt þetta í hug þegar ég heyrði andsvar hv. þm. Halldóru Mogensen við ráðherra, hún benti á klausu sem ég hafði ekki lesið sem var innan á kápunni þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Án skriflegs leyfis útgefanda má ekki endurprenta eða afrita þennan staðal með neinum hætti, vélrænum eða rafrænum, svo sem ljósritun, hljóðritun eða annarri aðferð sem nú er þekkt eða verður síðar fundin upp, né miðla staðlinum í rafrænu gagnasafni.“

Jahá. Hvað var ég að gera? Var ég að brjóta lög, kæri forseti? Eða er kannski dálítið kómískt að Alþingi sé að ræða frumvarp sem efnislega er allt geymt í staðli sem við samkvæmt notkunarskilmálum staðalsins megum ekki lesa upphátt í ræðustól Alþingis? Er þetta í alvöru staðan? Ha? Ég hefði ekki fattað þetta fyrr en bent var á þetta í kvöld. Ef ég hefði ekki meira að segja þá væri ég orðlaus.

Ég beindi því til forseta fyrr í kvöld að okkur þingmönnum yrði hverjum og einum útvegað eintak af staðlinum, enda kostar hann 10 þús. kr. hjá Staðlaráði. Fyrir þingið gerir það 630.000 kr., það er nú eitthvað. En af því að Staðlaráð er ekki alveg ótengt hinu opinbera, ég held að ríkið hafi einhver ítök þar innan búðar, spyr ég hvort það sé ekki einfaldlega hægt, eins og bent var á í ræðum fyrr í kvöld, að opna þennan staðal. Ef við erum að lögfesta staðal um jafnlaunavottun, má hann ekki vera aðgengilegur og gagnsær? Gagnsæið við ákvörðun launa er grundvallarþemað í innleiðingu jafnlaunavottunar, að ákvarðanir séu teknar þannig að þær mismuni fólki ekki í skjóli óskýrleika. Þá held ég að væri meiri bragur á því að þingið og ráðherra myndu sameinast um að þetta skjal yrði ekki lokað á bak við gjaldhlið hjá Staðlaráði Íslands.

Það er búið að fara ágætlega yfir ýmsar þær spurningar sem vakna þegar maður les staðalinn. Það sem situr mest í manni eftir fyrsta lestur í gegnum hann er að hann mun ekki uppræta kynbundinn launamun. Hann mun verða til þess að fyrirtæki og stofnanir yfir ákveðinni stærð þurfa á sínum vettvangi, sínum þrönga vettvangi, að ákvarða laun í hverju lagi fyrirtækisins þannig að innan þess lags sé fólki ekki mismunað á grundvelli kynferðis. Svo ég taki dæmi hér úr staðlinum — og þið, kæru þingmenn, hefðuð örugglega gaman af því að vera með staðalinn í höndunum og fylgt mér, en þið verðið bara að trúa mér — er hér dæmi nr. 3 um byggingarfyrirtæki. Í þessu fyrirtæki starfar fólk á sjö sviðum, það er forstjóri, framkvæmdastjóri, sérfræðingur, ráðgjafi, trésmiður, ritarar og bílstjóri. Það er alveg hægt að ímynda sér hvernig byggingarfyrirtæki með þessari starfsmannasamsetningu gæti litið út þegar kemur að kynjasamsetningu. Án þess að ég hafi endilega einhverja vinnumarkaðsrannsókn á bak við það sem ég ímynda mér þá myndi ég halda að efsta lagið í þessu fyrirtæki væri að miklu leyti skipað karlmönnum, en að ritararnir tveir væru konur eins og er raunar í dæminu, enda eru þeir í lægst flokkaða starfinu, þar sem þeir teljast ekki bera nógu mikla ábyrgð eða hafa nógu mikla þekkingu o.s.frv. Það eru allir þessir mælikvarðar sem eru settir upp til þess að meta störf á réttlátan hátt.

Það vill oft vera kjarninn í launamatskerfi að það umturnar ekki strúktúrnum sem er til staðar í fyrirtækinu. Hér er t.d. einn þáttur sem heitir ábyrgð á búnaði, þar sem forstjórinn fær fullt hús stiga, átta stig samtals, en trésmiðirnir sem nota tækin fá ekki nema sex. Vissulega má færa einhver rök fyrir því, ef maður aðhyllist stigveldishugsun í ábyrgðarkeðjunni, að forstjórinn beri meiri ábyrgð á tækjunum, en það er trésmiðurinn sem getur eyðilagt þau. Það er trésmiðurinn sem getur sagað framan af fingri með rangri notkun tækjanna, þannig að ábyrgðin á gólfinu er meiri, finnst mér, en hjá manninum sem ákveður tíunda hvert ár að kaupa nýja bandsög. En þetta er málefnaleg niðurstaða í þessu launamatskerfi. Það vill bara svo til að þetta er líka niðurstaða sem viðheldur stigveldinu innan fyrirtækisins. Þetta er málefnaleg niðurstaða sem er búin til í kynjakerfi þar sem vinnumarkaðurinn er allur lagskiptur og þar sem karlar eru í stöðum þar sem framlag þeirra er metið hærra en kvenna. Það er málefnalegt samkvæmt þessum staðli.

Eins og hæstv. ráðherra kom inn á þegar hann svaraði andsvari mínu fyrr í kvöld þegar ég spurði hvort mætti taka öll 11 ráðuneytin, steypa þeim saman og jafnlaunavotta þau sem eina heild, þá sagði hann að við gætum kannski gert það í annarri umferð þegar búið væri að taka hvert fyrir sig. Já, málið er nefnilega að það er launamunur á milli ráðuneyta sem endurspeglar kynjaskiptan vinnumarkað, endurspeglar það að við verðleggjum störf við umönnun lægra en störf við fjármagn. Það vill svo til að meiri hluti þeirra sem starfar við umönnun eru konur meðan karlar eru meira áberandi í hópi þeirra sem fá háar tekjur fyrir að höndla með fjármuni. Þessi launamunur úti í samfélaginu er til staðar í ráðuneytunum líka. Það sýna launakannanir innan ráðuneytanna sem er misjafnt hvort lagt er í að gera eða ekki. Það fer eftir því hvort ríkisstjórnir treysta sér í þá óánægju sem myndast meðal starfsmanna ráðuneytanna þegar kemur í ljós að sérfræðingar á sömu hillu innan síns ráðuneytis eru oft með grunnlaun þar sem munar tugum ef ekki hundruðum þúsunda eftir því hvort þeir vinna í fínu ráðuneytunum eða þeim ódýru.

Það væri vissulega erfitt að innleiða kerfi yfir ráðuneytin 11 í heild, en ímyndum okkur hvað væri erfitt að innleiða alvörujafnlaunakerfi yfir samfélagið. Jafnlaunavottunin gerir það ekki. Hún gerir það á 1.180 blettum í samfélaginu. Innan hvers og eins bletts þessara 1.180 fyrirtækja sem eru með 25 eða fleiri starfsmenn verða jöfn laun, en þau verða ekki jöfn þannig að allir innan fyrirtækisins njóti sannmælis ef fyrirtækið er þannig skipulagt að allt í einu hafi bara óvart raðast karlar í hátt launuðu toppstöðurnar og konur í þær lágt launuðu. Við verðum með 1.180 vinjar jafnlauna í samfélaginu sem fá stimpil frá Jafnréttisstofu um að þar sé allt í lagi og áfram höldum við að þeirri ásýnd úti í heimi að á Íslandi sé jafnrétti mest í heimi, hér sé allt í himnalagi. Það er hættan. Þó að þetta sé ágætt gæðakerfi um ákvörðun launa þá er kannski ofrausn að kalla þetta í rauninni jafnlaunakerfi af því að það gefur til kynna að með því að innleiða það þá séum við búin að afgreiða kynbundinn launamun. Ég er ekkert viss um að þetta hefði það mikil áhrif á þann mælda kynbundna launamun sem birtist í könnunum ár eftir ár. En tíminn leiðir það væntanlega í ljós.

Það hefur verið minnst á þetta áður í ræðu í kvöld, en mig langar líka að velta upp þessu með eftirlitið. Fyrirtæki sem eru með á bilinu 25–99 starfsmenn, sem ég ímynda mér að sé stærstur hluti af þessum 1.180 fyrirtækjum sem rætt er um að frumvarpið nái til, geta komist í gegnum jafnlaunavottun með einhverri skemmri skírn þar sem hagsmunaaðilar eins og það heitir í frumvarpinu og staðlinum skrifa upp á að búið sé að innleiða jafnlaunastaðalinn í fyrirtækinu. Það eru þá starfsmenn eða samtök starfsmanna sem skrifa upp á fyrir atvinnurekandann að hér sé allt í himnalagi, það vottorð fer upp í Jafnréttisstofu sem stimplar það. Stærri fyrirtækin fara til einkaaðila úti í bæ og borga þeim fyrir vottunina, senda til Jafnréttisstofu sem stimplar það.

Þetta þarf Jafnréttisstofa að gera þriðja hvert ár fyrir 1.180 atvinnurekendur, þarf að halda skrá, þarf að birta hana, þarf að hafa eftirlit með öllum þessum aðilum og gert er ráð fyrir að fjölga þurfi um eitt stöðugildi hjá stofunni. Það má borga þeirri manneskju ansi há laun ef hún á að sinna þessu verkefni. Þá gildir einu hvort það er karl eða kona.