146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[22:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég efast um að mér hafi nokkurn tímann þótt jafn gaman að vera viðstaddur umræðu um vottun og staðla og núna. Ég vildi óska þess að klukkan væri ekki orðin svona margt og ég væri ekki farinn að geispa svona innra með mér, því að málefnið er ansi brýnt. Ég ætla að taka undir hamingjuóskir til hæstv. ráðherra fyrir að hafa lagt fram þetta frumvarp. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að vera með hæstv. ráðherra í New York á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Ég sá í hvað stefndi og kom mér út úr salnum áður en víkingaklappið brast á. Ég á hins vegar myndband sem ég mun beita í svæsnum samningaviðræðum þegar þar að kemur.

Ég varð var við þá athygli sem umrætt frumvarp hlaut þar og var mér stundum nóg um hafa ekki fengið að heyra meira um það en nokkur annar utan innsta hrings ráðherra hafði gert þá, því að ekki var að heyra annað en að frumvarpið yrði að lögum núna í vor og yrði samþykkt eða myndi fara að hafa áhrif um næstu áramót. Það var dálítið sérkennileg lífsreynsla að heyra það um frumvarp sem maður vissi að væri jafn umdeilt innan stjórnarliðsins og raun ber vitni, frumvarp sem ekki hafði komið fram og var í raun og veru óvíst á þeim tíma að myndi nást að leggja fram sem ríkisstjórnarmál. En ráðherra var keikur og reyndist hafa innstæðu fyrir því. Hér er hann búinn að leggja fram þetta mál.

Aðspurður sagði hæstv. ráðherra í andsvari hér áðan að það væri kannski ekki veikleikamerki á stjórninni að ekki væri full samstaða um þetta innan stjórnarmeirihlutans. Ég veit ekki hvort ég myndi taka undir þá skilgreiningu hvort það sé veikleikamerki eða ekki, mér er í raun nokk sama um það. En staðreyndin er sú að ríkisstjórnin mun að öllum líkindum, miðað við yfirlýsingar einstaka stjórnarþingmanna, þurfa að stóla á stuðning stjórnarandstöðunnar varðandi þetta frumvarp, stuðning minni hlutans. Í raun og veru hefði kannski átt að kynna frumvarpið fyrir minni hlutanum áður en það var lagt fram frekar en að vera að fara með það í þingflokka ríkisstjórnarinnar, því að við í minni hlutanum eigum jú að koma því þannig fyrir að það verði að lögum. Samráðið var því kannski ekki á réttum stöðum. En látum það nú vera.

Ég fagna öllum þeim skrefum sem stigin eru í þá átt að ná á fullu jafnrétti hér á landi sem og annars staðar í heiminum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Öllum skrefum. Mér er alveg sama hvað það heitir, jafnlaunavottun, -staðall, ISO, hvað það er, hvort það heitir að afnema launaleynd, sem ég held kannski að myndi eitt og sér hafa jafnvel víðtækari áhrif en þetta frumvarp, hvort það heitir að við færum sænsku leiðina, sem ég fræddist um á fundi í New York með hæstv. ráðherra þar sem stjórnvöld fara í ársreikninga og skattamál fyrirtækja eftir á og kanna hvernig greitt hefur verið. Mér er í rauninni alveg sama hvaða leið við förum, förum þær allar. Ég held að því miður sé það ekki þannig að einhver ein leið leysi allan vandann. Þessi leið er fín fyrir sinn hatt, ég hef enga ástæðu til annars en að ætla að hún virki til góðs. En ég er efins um að þetta sé töfralausnin sem koma muni á fullu jafnrétti óháð kyni hér á landi. En þetta er ein af þeim lausnum sem koma þarf með.

Það hefur verið farið ágætlega yfir það hér að varast þarf og hafa í huga áður en farið verður í það ferli að votta og beita staðlinum sjaldséða, hinum staka staðli sem hv. þm. Andrés Ingi Jónsson liggur á eins og ormur á gulli. Skil ég hann vel. Það verður að segjast eins og er að það er pínulítið skrýtið að vera hér að ræða frumvarp þar sem 1. grein hljóðar svo:

Vottun: Skrifleg yfirlýsing vottunaraðila sem veitt er með vottunarskírteini, að undangenginni úttekt hans á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar, um að jafnlaunakerfið og framkvæmd þess uppfylli kröfur staðalsins ÍST 85, sbr. 1. gr. c staðalsins“, og að hafa ekki séð umræddan staðal ÍST 85, nema tilsýndar, hafa fengið að gjóa á hann glyrnum úr sæti mínu öfundaraugum á borði hv. þingmanns sem hefur hinn staka staðal undir höndum.

Það hefði verið betra ef við hefðum öll fengið að velta þessum staðli aðeins fyrir okkur og skoða hann. Ég held að umræðan hér hefði orðið betri. En við skulum halda áfram með umræðuna alveg óháð því hvort hún hefði getað verið betri. Hún verður þá bara betri og dýpri í næstu umferð þegar við verðum komin með staðalinn í hendurnar og búin að vinna málið betur og dýpra.

Nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á hættuna sem ég var að tala um sem við verðum að hafa í huga hér. Það er raunveruleg hætta á því, sem ég held að verðum að hafa opin augun fyrir, að jafnlaunavottun geti fest í sessi í ríkjandi ástand, þ.e. að hin kerfisbundna kynjaskipting á vinnumarkaði og misrétti í launum sem það felur í sér verði vottuð og samþykkt. Ég held að það sé raunveruleg hætta sem við þurfum að vera með augun opin gagnvart þegar farið verður í þessa vinnu. Íslenskur vinnumarkaður er að mörgu leyti mjög kynjaskiptur. Því miður erum við með kyngreindan vinnumarkað. Eitt eru laun og annað er framgangur innan fyrirtækja. Það hefur sýnt sig að karlar eru mun líklegri að fá framgang í fyrirtækjum en konur.

Svo vil ég koma lauslega inn á það hvað er metið hærra til launa. Hvaða störf ætlum við að meta hærri til launa? Eru það störfin sem lúta því að hreyfa einhverja peninga á milli einhverra tölvu… ég veit ekki einu sinni hvaða orð ég á að nota, þetta er svo fjarri mínum hugarheimi, en að flytja til einhverjar tölur á skjá sem búa einhvers staðar til peninga, eða það að passa upp á börnin okkar, aðstoða við að þau þroskist og dafni og komi heil heim. Það er bara hætta. Með þessu er ég ekki að segja: Nei, það má ekki fara í þessa jafnlaunavottun. Að sjálfsögðu ekki. Þetta er bara það sem við þurfum að hafa í huga þegar vinnan og matið fer af stað. Það má ekki festa í sessi ástand sem ekki er æskilegt.

Ég hlustaði á hæstv. ráðherra úti í New York. Mér leið stundum eins og ég væri að fylgja rokkstjörnu þegar ég fór með ráðherra um ganga aðalstöðva Sameinuðu þjóðanna í New York. Það var mjög mikil athygli sem Ísland og hæstv. ráðherra fengu þar. Ég horfði á fólk bresta í grát af geðshræringu yfir þessu væntanlega frumvarpi. Ég hlustaði á ráðherra lýsa yfir góðri stöðu Íslands, að við gætum engan elt og þyrftum því að ryðja brautina og vera í fararbroddi. Sú reynsla sagði mér ýmislegt. Hún sagði mér hvað það er auðvelt að láta hrífast af athygli og aðdáun annarra í útlöndum. Það gerði ég sjálfur. Ég var voðalega stoltur af því að vera Íslendingur þarna á milli þess sem ég varð vandræðalegur yfir allri athyglinni sem mér fannst ótímabær miðað við að hafa ekki séð hvert við værum að fara. En þetta sagði mér líka hversu rík þörfin og vonin til þess að ná raunverulegum skrefum í þessum málum er hjá konum um allan heim, hvaðanæva úr heiminum. Þær gátu trúað á að með þessu frumvarpi værum við að stíga stórt skref í áttina að því að útrýma kynbundnum launamun. Sú von er raunveruleg. Hún verður til vegna ástandsins eins og það hefur verið síðustu árin, áratugina, aldirnar, árþúsundin.

Þess vegna fagna ég öllu því sem verður til þess að bæta og breyta því ástandi, því að staðan er sú að það er alveg sama hvar okkur ber niður í heiminum, hvar okkur ber niður á tekjubilinu, hvar okkur ber niður í löndum eftir því hvernig efnahagsástandið er á hverjum stað, eftir því hvernig framleiðslan er í hverju landi fyrir sig, það er bara alveg sama hvar okkur ber niður á þessari jarðarkringlu; alls staðar hallar á konur þegar þær eru metnar við hlið karlanna í sömu og sambærilegum stöðum. Það er engin tilviljun. Þetta ástand verður að skipulögðu reglukerfi, skipulögðu hugarfari og byggist á aldalöngum og gömlum hugsunarhætti. Eitt er laun, annað er þátttaka í ólaunuðum umönnunarstörfum. Það er alveg sama á hvaða tekjubili okkur ber niður þar, hvort það eru konurnar sem eru á hæstu laununum eða konurnar sem eru á lægstu laununum, hvort konurnar eru með hærri laun en maki þeirra eða lægri; alls staðar eru það konur sem sinna stærstum hluta ólaunaðra umönnunarstarfa. Þetta eru engar smá upphæðir sem við erum að tala um, á heimsvísu er talið að ólaunuð umönnunarstörf nemi um 10 trilljónum bandaríkjadala. Ég kann ekki einu sinni að segja þá upphæð á íslensku.

Þannig að öll skref eru góð sem við stígum í þá átt að bæta óréttlæti, sem við beitum og viðhöldum á hverjum einasta degi á meðan ástandið er svona.

Ég fagna því þess vegna að þetta frumvarp komi fram. Ég vona að hæstv. ráðherra hafi orðið fyrir sömu hughrifum og ég varð fyrir í New York. Einstaka maður eða kona hefur sagt við mig að ég sé sjálfhverfur maður og leiðist ekki að tala um sjálfan mig. Til að valda því fólki ekki vonbrigðum ætla ég núna að tala meira um sjálfan mig. Ég fór til Sameinuðu þjóðanna á fund kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York með þá hugmynd að auðvitað vissi ég að óréttlæti ríkti í heiminum þegar kæmi að konum, en ég var ekki búinn að setja mig inn í nákvæmlega hvar það væri, hér eða þar. Ég hafði samt grunnhugmynd um að þó ég væri með typpi þá ætti ég ekki að fá meiri réttindi en konan við hliðina á mér sem er það ekki — svona grunnhugmynd um að allir eigi bara að vera jafnir. En ég varð fyrir þeim hughrifum þar hve víðfemt og gríðarlega umfangsmikið vandamálið er á öllum sviðum mannlífsins. Þess vegna vona ég að hæstv. ráðherra hafi orðið fyrir sömu hughrifum, hafi hann ekki einfaldlega verið þeirrar skoðunar áður en hann fór út, sem ég þori náttúrlega ekkert að segja til um, og að það þurfi að grípa til aðgerða alls staðar.

Ég hvet hæstv. ráðherra til að kynna sér tillögu sem ég lagði hér fram um kynjavakt Alþingis, sem er tillaga sem fæddist á þessum fundi. Ég hvet hæstv. ráðherra til að beita sér fyrir því að við förum alls staðar, í alla geira mannlífsins, förum inn í menntakerfið, eflum menntun á sviði kynjafræði og jafnréttisfræði, stígum alls staðar inn þar sem stíga þarf inn til að breyta ástandinu, því að það er rétt að gera það. Skiptir þá engu máli hve mikið það kostar.

Þetta er gott skref og hæstv. ráðherra getur verið stoltur af því að hafa náð að leggja það fram hér.