146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:06]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil, eins og aðrir sem komið hafa upp í þennan ræðustól, óska hæstv. ráðherra til hamingju með frumvarp um jafnlaunavottun, sem er eitt hið fyrsta ef ekki fyrsta frumkvæðismál ríkisstjórnarinnar og jafnframt eina alvörumálið sem sá ágæti flokkur, Viðreisn, hefur komið í gegn í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. Ég vona að stuðningurinn innan raða stjórnarliða muni aukast við frumvarpið frá því sem nú er. Eins og kunnugt er hafa nokkrir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sett sig upp á móti þessu ágæta frumvarpi.

Jafnlaunastaðallinn er ágætur svo langt sem hann nær. Hann er gott verkfæri til að tryggja hlutlæg viðmið í launasetningu, en hann er sannarlega ekki hafinn yfir gagnrýni. Ég er ekki sérfræðingur í stöðlum og hef ekki lesið hið fræga plagg sem samflokksmaður minn, Andrés Ingi Jónsson, veifaði hér í ræðustól, en búið er að vinna í mörg ár að staðlinum sem um ræðir og sem notaður er til viðmiðunar í þessu ágæta frumvarpi. Jafnlaunastaðallinn er nauðsynlegur en hann tekur ekki á því sem skiptir mestu máli, sem er að vinnumarkaðurinn er kynskiptur, að hefðbundin kvennastörf eru minna metin en hefðbundin karlastörf. Auk þess fangar hann ekki hírarkíuna eða stigveldið sem ríkir á vinnumarkaðnum. Ég geld því varhuga við því að jafnlaunastaðallinn og -vottunin verði enn eitt tækið sem bjarga á öllu. Staðreyndin er sú að það þarf að fara í grundvallarvinnu við að breyta viðhorfum og vinnumenningu hér á landi með það að markmiði að jafna tækifæri kynjanna á vinnumarkaði, en það þarf líka að fara í samfélagslega breytingu í heild sinni þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Ég held og vona að hæstv. ráðherra sé mér sammála þar um.

Það eru nokkur atriði í frumvarpinu sem ég mundi gjarnan vilja heyra hæstv. ráðherra útskýra nánar á eftir. Til að mynda: Hvernig hyggst hann, til viðbótar við jafnlaunavottun, vinna að jöfnun tækifærum kynjanna á vinnumarkaði? Hæstv. ráðherra hefur dýrmæta reynslu í farteskinu frá sínum fyrri störfum í samskiptum við aðila á launamarkaðnum. Mun hann líka horfa til annarra sviða mannlífsins og samfélagsins og beita sér fyrir því að farið verði í sértækar aðgerðir innan menntakerfisins við að jafna kynbundið námsval sem svo leiðir til kynbundins starfsvals? Ég myndi gjarnan vilja fá að heyra hvaða hugmyndir og sýn hann hefur hvað það varðar.

Ég hef líka áhuga á því að heyra hjá hæstv. ráðherra hvort hann ætli sér að beita sér fyrir því að styrkja jafnréttislög, að dagsektir verði settar á þegar þau eru brotin, rétt eins og lög um jafnlaunavottun, eins og fram kemur hér.

Samkvæmt frumvarpinu sem við ræðum hér er fjölmörgum verkefnum bætt við og þau lögð á herðar Jafnréttisstofu, en því miður vantar í frumvarpið tölur um aukið fjármagn til Jafnréttisstofu til að sinna því aukna álagi sem tengist þessu frumvarpi og þeirri vinnu sem fer fram. Það sést ekki hér eða í fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Á Jafnréttisstofu vinna sex konur og tveir karlar. Það væri ögn vandræðalegt ef það góða starfsfólk fengi sömu laun áfram fyrir meira vinnuálag fyrir að inna af hendi vinnuna sem bætist við við jafnlaunavottunina.

Hér er heldur ekki útfært hvað gerist nákvæmlega ef fyrirtæki eða stofnun hefur ekki öðlast vottun eða staðfestingu eða endurnýjun þar á þó að hér sé boðað að ef óvissa skapast geti ráðherra sett reglugerð þar um. Ég myndi gjarnan vilja hafa þetta ákvæði skýrara vegna þess að við vitum af reynslunni að jafnréttislög eru óskýr hvað þetta varðar. Það hefur orðið til þess að virðing fyrir jafnréttislögunum hefur ekki náð þeim hæðum sem við vildum sjá í samfélagi okkar.

Hvernig mun félagsmála- og jafnréttisráðherra beita sér fyrir því þegar ríkið fer í samningaviðræður við launafólk að halda sérstaklega utan um kvennastéttirnar? Minnug þess að síðasta ríkisstjórn, með núverandi forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra, vílaði ekki fyrir sér að setja lög á verkföll kvennastétta á borð við hjúkrunarfræðinga í stað þess að setjast niður með þeirri stétt sem við öll eigum svo margt að þakka.

Þess má líka geta að ábyrgð hins opinbera er mikil þegar kemur að launum, því að innan raða hins opinbera er að finna lægst launuðu stéttirnar, sem eru jú kvennastéttir eins og hér hefur verið rakið. Þar er ábyrgð hins opinbera gríðarlega mikil. Því er gríðarlega mikilvægt að hið opinbera gangi fram fyrir skjöldu og leggi línurnar, setji ekki lög á kvennastéttir eins og gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar, heldur setjist niður og sýni viðunandi virðingu þeim kvennastéttum sem vinna aðallega við uppfræðslu, umönnun og annað.

Ég held að hér sé komið fram nauðsynlegt tæki fyrir okkur sem unnið hefur verið að í mörg ár við að koma á. Unnin hefur verið þrotlaus vinna að því kortleggja launamuninn sem fyrirfinnst í samfélaginu. Við höfum ítrekað heyrt rifist um það hver launamunurinn sé nákvæmlega. Mér finnst eiginlega skipta minna máli hver prósentutalan er nákvæmlega á meðan kynbundinn launamunur fyrirfinnst í íslensku samfélagi, hversu mikill sem hann er, ber okkur að uppræta hann með öllum tiltækum ráðum. Þar er ekki nóg að hafa svona gott tæki, hversu gott tæki sem það er.

Ég minni líka á að kynbundið ofbeldi er hluti af ákveðinni vinnumenningu þar sem því miður þrífst kynferðisleg áreitni o.s.frv. sem heldur og viðheldur þessum stigsmun karla og kvenna í ákveðnum stöðum og þar með í ákveðnum stöðum innan samfélagsins. Ég hef trú á því að hæstv. ráðherra muni beita sér líka almennt séð í þessum málum.

Ég hlakka til að sjá boðaðar víðtækari aðgerðir sem stuðla að jafnrétti kynjanna. Það ágæta frumvarp sem við ræðum hér um, sem hefur einmitt mikið verið rætt um alls staðar annars staðar en í þinginu og við fáum loks að ræða hér, er gott eins langt og það nær, en dagar hvítþvottanna eru liðnir. Allsherjarátaks er þörf ef rétta á við inngróið ójafnrétti kynjanna í íslensku samfélagi. Það er ekki nóg að við gortum okkur af því að Ísland sé best í heimi þegar kemur að kynjajafnrétti og mun kynjanna á vinnumarkaði og á öðrum sviðum. Það er ekki nóg að baka bleikar kökur. Aðgerða er þörf og þær aðgerðir þurfa að vera raunverulegar. Þær þurfa að sýna í verki þann hug og þann dug sem ríkisstjórnarflokkarnir, a.m.k. Viðreisn, sýna hér með þessu frumvarpi, að þeim sé nokkur alvara í því að halda jafnréttismálunum á lofti. Ég held að það sé ekki annað eftir en að styðja þá góðu viðleitni, en vonast eftir meiru af því að við viljum alltaf aðeins meira en við fáum.