146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:22]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get nú ekki orða bundist. Ég hef áður úr þessum ræðustól rætt um leiðtogatal sem við heyrum í stjórnmálum á Íslandi. Hæstv. ráðherra nefndi leiðtogahlutverk, leiðandi, í fararbroddi þýðir það. Við höfum talað um það í orkumálum, loftslagsmálum, umhverfismálum, málefnum hafsins, fiskveiðum og núna í jafnréttismálum og erum vissulega framarlega, en það er ekki sama og að vera leiðtogi. Ég gat ekki betur heyrt en að hv. þingmaður segði að við værum í góðri stöðu. Það er nefnilega rétt. Leiðtogahlutverk er nefnilega staða sem menn eða samfélög ávinna sér með margra og annarra augum en sínum eigin. Þau stimpla sig ekki sjálf sem leiðtoga. Ég vara því við þeirri ofrausn. Þetta slær kannski eitthvað á gleðina, en það er auðvelt að gefa á sér höggstað ef menn tala svona.

Ég nefni þetta út af málefninu hér því að við erum vissulega allframarlega í jafnréttismálum. Jafnréttisstefna og jafnlaunastefna eiga sér ekki ófáa talsmenn hér á Alþingi, svo sem hv. þm. Hönnu Katrínu Friðriksson og hæstv. ráðherra Þorstein Víglundsson og mig, með eða án, nú ætla ég að finna upp nýtt orð, jafnlaunaklapps. Ég spyr hv. þingmann hvort hún sé sammála mér um að leiðtogahlutverk í jafnréttismálum sé orðum aukið.