146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:31]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég ætla svo sem ekkert að dvelja við efnisatriði málsins enda hefur verið farið ágætlega yfir þau í kvöld og ég vil þakka fyrir mjög góða umræðu sem við ljúkum væntanlega á morgun miðað við stöðu klukkunnar og mælendaskrárinnar.

Hv. þingmaður er sýnist mér fyrsti þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem tekur til máls í þessu stjórnarmáli sem er áherslumál ríkisstjórnarinnar en er þó svo sérkennilega um búið að það er augljóst að stjórnarflokkarnir, og þá sérstaklega flokkur hæstv. ráðherra, gera ráð fyrir því að njóta stuðnings við málið úr röðum stjórnarandstöðunnar. Ég held að það sé full ástæða til þess að málið fái a.m.k. jákvæða umfjöllun og jákvæðan heimanmund í 1. umr. með öllum þeim fyrirvörum sem því fylgja auðvitað við þinglega meðferð málsins. Þetta er sannarlega óvenjulegt þegar um er að ræða stjórnarmál að því sé teflt fram svo tæpt sem hér er gert.

Af þeim sökum vil ég spyrja hv. þingmann hvort það sé svo að málið hafi verið afgreitt út úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins með fyrirvara, með almennum fyrirvara flokksins í heild, eða hvort tilteknir þingmenn, ég óska ekki eftir því að fá upplýsingar um það í smáatriðum, hafi bókað fyrirvara við málið. Það er óvenjulegt að gert er ráð fyrir stuðningi stjórnarandstöðunnar, en það hafa ekki farið fram nein samtöl í þá veru að leita fyrir sér með slíkan stuðning. Það er líka óvenjulegt. Við erum í raun og veru að eiga þetta samtal í 1. umr. málsins og ekkert slíkt samtal hefur átt sér stað mér vitanlega af hendi ráðherrans (Forseti hringir.) eða gagnvart forystumönnum í flokkum stjórnarandstöðunnar eða með neinum öðrum formlegum hætti.(Forseti hringir.) Af þessum sökum vil ég spyrja hv. þingmann þessarar spurningar.