146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[23:35]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni greinargóð svör. Mig langar í framhaldi af þessu að spyrja hv. þingmann aðeins um efnisatriði málsins, í fyrsta lagi hvort hún sé sammála þeim vangaveltum sem komið hafa fram sérstaklega úr röðum Sjálfstæðisflokksins sem lúta að því að hér sé um íþyngjandi aðgerð að ræða gagnvart atvinnulífinu. Það höfum við líka heyrt úr röðum Samtaka atvinnulífsins, að menn þar telji óeðlilegt að verið sé að leggja kvaðir í gegnum löggjöf á atvinnulífið með þessum hætti. Það skal tekið fram að ég er ekki sammála því. En þessi orðræða er nú nálægt ranni hæstv. ráðherra þannig að hann þekkir hana væntanlega vel sjálfur.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann um þessar áhyggjur sem hafa verið viðraðar hér þrátt fyrir almenna jákvæða umræðu um málið sem slíkt, áhyggjur sem lúta að því að málið kunni að vera of þröngt miðað við það hversu miklar væntingar hafa verið blásnar upp í kringum það. Það hefur jafnvel verið svo á erlendri grund að látið hefur verið að því liggja að hér sé í raun og veru um að ræða hina endanlegu lausn á þeim óhræsisvanda sem kynbundinn launamunur er. Þá kannski í fyrsta lagi: Hvað telur þingmaðurinn að eigi að fylgja á eftir þessu máli nái það fram að ganga?

Hins vegar vil ég biðja þingmanninn að velta því fyrir sér hvort það sé eitthvert sannleikskorn í því að það kunni að hafa verið ekki alveg full innstæða fyrir þeim lúðrablæstri sem fylgdi hæstv. ráðherra á erlendri grund þegar látið var að því liggja að hér væri um endanlega útför kynbundins launamunar að ræða.