146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

Klíníkin og áherslumál Bjartrar framtíðar.

[15:05]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég get nú hjálpað hæstv. ráðherra og formanni Bjartrar framtíðar með seinna svarið. Það væri mjög skynsamlegt að hafa það bara stutt og segja: Nei, Björt framtíð ætlar ekki að láta bjóða sér þá útreið sem hennar málaflokkar eiga að sæta í þessari ríkisfjármálaáætlun.

Varðandi lög um heilbrigðisþjónustu held ég að það eigi einfaldlega að ganga skýrt frá því í lögunum þannig að enginn ágreiningur sé um það, þ.e. hvaða starfsemi eigi að vera leyfisskyld og hvaða starfsemi við viljum hafa leyfisskylda áfram. Mér finnst það ótrúlegt ef svo er komið að menn geti hugsað sér að á gráu lagasvæði gætu einkarekin sjúkrahús bara sprottið upp í landinu. Látum það vera að sjálfstætt starfandi sérfræðingar þurfi ekki starfsleyfi fyrir hverri starfsstöð sinni, en að sá möguleiki sé þar með opinn lagalega að eitt stórt einkasjúkrahús, jafnvel sérhæfð sérgreinasjúkrahús, geti sprottið upp sisvona án nokkurs leyfis frá stjórnvöldum er fráleitt. Þess vegna á að taka af skarið um það í lögum.