146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

nám í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun.

[15:22]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að þetta var í fréttum núna um daginn og bréf kom frá Myndlistaskólanum í Reykjavík til ráðuneytisins í febrúar, ef ég man rétt. Ég sat síðast í morgun fund með Þroskahjálp vegna þessa máls. Ráðuneytið hafði enga aðkomu að því að þetta nám er að gefa upp öndina, ef svo mætti segja. Þetta er gert í gegnum Fjölmennt sem hefur samning við menntamálaráðuneytið upp á 230–250 millj. kr. á ári og þar undir eru vistuð ýmis verkefni. Það er ákvörðun á þeirra vegum sem leiðir til þeirrar niðurstöðu sem þarna hefur verið til umræðu. Málið er fyrst að koma til umræðu og athugunar í ráðuneytinu hjá mér um þessar mundir og ég ítreka að fjárheimildirnar sem fyrir liggja í þeim efnum eru ákvarðaðar af Alþingi og ráðherrann hefur ekki neina digra sjóði til að ganga í. Það er bara svo einfalt eins og það liggur fyrir í orðum mínum. Þetta byggist sem sagt á ákvörðun Fjölmenntar þar sem tekin er ákvörðun um að hætta þessu námi. Áður er fordæmi fyrir því að diplómanám hafi verið komið í gang á vegum Fjölmenntar og Þroskahjálpar við Háskóla Íslands og það gengur áfram þó að Fjölmennt hafi dregið sig út úr fjármögnun á því. Myndlistaskólinn í Reykjavík virðist ekki treysta sér til að halda þessu lengur áfram að óbreyttu og þá þarf einfaldlega að fara yfir þá stöðu frá öllum hliðum og taka síðan ákvarðanir um það hvernig því verður fram haldið.