146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

framlög til þróunarmála.

[15:26]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar til næstu fimm ára kemur fram að Ísland ætlar að draga mun meira úr framlögum til þróunarmála en síðasta ríkisstjórn ákvað. Einnig stendur til að fækka samstarfslöndum í Afríku. Verði áætlunin samþykkt mun Ísland greiða helmingi minna til þróunarmála en ríkisstjórn VG og Samfylkingarinnar ætlaði sér að ná við mun verri efnahagsaðstæður en nú ríkja.

Það þarf varla að minna á að Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar um að fylgja markmiði Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu. Með því að halda prósentutölunni nú á sama stað og árið 2011 erum við ekki bara að gera lítið úr orðspori okkar á alþjóðavísu, heldur erum við að víkjast undan siðferðislegum skyldum okkar sem efnaðs samfélags til að aðstoða þau allra fátækustu í þessum heimi.

Nú vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra sem hefur síðastliðin ár sýnt velvilja til þróunarmála bæði í orðum, ræðum og í atkvæðagreiðslu: Er það virkilega með hans fyllsta stuðningi að dregið er saman í framlögum Íslands til þróunarsamvinnu eins og fram kemur í fjármálaáætluninni til næstu fimm ára?