146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

framlög til þróunarmála.

[15:30]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna hæstv. forsætisráðherra skýlir sér á bak við krónutölurnar þegar alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist snúast um prósentu og prósentuhlutfall af vergum þjóðartekjum, ekki krónutölu. Þetta veit hæstv. forsætisráðherra mætavel.

Hvers vegna vill ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra ekki setja sér metnaðarfyllri markmið um hærri framlög? Er það virkilega svo að það verður arfleifð þessarar ríkisstjórnar að draga saman fjármuni til þeirra sem mest þurfa á stuðningi að halda og að fækka samstarfsríkjum í þróunarsamvinnu? Hvaða ráðherrar eru það innan raða ríkisstjórnarinnar sem hafa ekki áhuga á þróunarsamvinnu? Vill hæstv. forsætisráðherra ekki að Ísland leggi sín lóð á vogarskálarnar til að styðja fátækustu þjóðir þessa heims til bjargálna?