146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[15:59]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, þ.e. fjölda fulltrúa í sveitarstjórn. Ég verð að taka undir með þeim þingmönnum sem hér stóðu, ég er ekki sammála þeirri nálgun sem hér er, m.a. varðandi það að það þyki ekki rétt í ljósi sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaganna að þvinga fram slíka fjölgun fulltrúa með lögum. Þetta er sami ráðherra og íhugaði að taka skipulagsvaldið af Reykjavíkurborg varðandi Reykjavíkurflugvöll. Þá þótti það ekkert tiltökumál. Það virðist eiga við stundum að sjálfsstjórnarrétturinn sé í heiðri hafður en síðan virðist það ekki vera niðurstaðan.

Þetta er líka ríkisstjórn samráðs og samtals eða hún lagði a.m.k. upp með það í byrjun. Mér finnst það svolítið sérstakt þegar við tölum um aukið lýðræði og aukna lýðræðisþátttöku að hér sé lagt til að setja það ekki sem skyldu að lýðræðisþátttakan verði aukin með lögum. Það hefur nú ýmislegt þurft að gera með lögum. Í gær vorum við að tala um jafnlaunavottun sem virðist þurfa að ganga fram með lögum til þess að við náum einhverjum árangri.

Ef þetta nær fram að ganga eru auðvitað miklu meiri möguleikar, fleiri sjónarmið heyrast. Ég held að það geti klárlega orðið niðurstaðan. Fleiri flokkar komist að, líka litlu flokkarnir sem hingað til hafa ekki komist að, þannig að það verður meiri fjölbreytni. Fyrsti varafulltrúi hvers flokks í borginni er á launum þannig að við getum sagt að kostnaðaraukinn ætti ekki að verða neitt sérstaklega mikill, það er alla vega ekkert sem segir að það ætti að vera þannig. Auðvitað er hægt að breyta strúktúr í framhaldinu. Þessu myndu eflaust fylgja einhverjar breytingar á fyrirkomulagi vinnulags innan borgarstjórnar, t.d. yrðu meiri líkur á því að borgarfulltrúar væru í nefndum. Ég held að það sé líka færi til að ná aukinni breidd þannig að það myndi endurspegla breiddina í samfélaginu þegar fleiri flokkar kæmust að. Samband íslenskra sveitarfélaga sendi inn athugasemd við frumvarpið í fyrra þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Það er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórna að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúanna. Mikilvægt er þó einnig að hafa í huga að það stjórnskipulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gildi um starfsemi sveitarfélaga gerir ekki ráð fyrir mjög stórum sveitarstjórnum enda byggt á því að sveitarstjóri sjálf taki allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur og stjórnsýslu sveitarfélagsins og beri á þeim ábyrgð.“

Þarna kemur líka fram að skiptar skoðanir séu innan borgarstjórnar um 11. gr. frumvarpsins sem þá var til umfjöllunar. Að baki tillögunni um fjölgunina lágu rök um að fjöldi borgarfulltrúa hefði verið óbreyttur frá 1908 með einni undantekningu, eins og hæstv. ráðherra rakti. En íbúafjöldi borgarinnar hefur tífaldast, þ.e. fjöldi kjósenda að baki hverjum borgarfulltrúa hefði þá farið úr rúmlega 800 í 8.000. Ég held að það sé alveg full ástæða til að við horfum til þessarar umsagnar og að sveitarfélögin sem þurfa að bregðast við þessu geti þá líka hugsað til þess. Það eru fyrst og fremst sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem eru með þennan íbúafjölda. Því miður er Akureyri ekki orðin svona stór þannig að hægt sé að fjölga bæjarfulltrúum í samræmi við þetta.

Þó að við getum líka sagt sem svo að í ljósi þess að varafulltrúar séu margir hverjir virkir í sveitarstjórn eða borgarstjórn þá koma þeir frá sömu flokkum. Það eru ekki fleiri sem komast að. Það er auðvitað ekkert garanterað, það gætu verið fleiri sem kæmust inn fyrir tiltekinn flokk, það er ekki fullvíst að fleiri flokkar kæmust að en það eru að minnsta kosti meiri líkur á því.

Í umsögn Reykjavíkurborgar er talað um að þrátt fyrir að borgarfulltrúar séu svona margir virkir, bæði aðal- og varafulltrúar, verði því ekki neitað, með leyfi forseta:

„… að fagráð borgarinnar eru að stórum hluta skipuð fulltrúum sem sóttir eru út fyrir hóp borgarfulltrúa sem hafa jafnvel ekki átt sæti á viðkomandi framboðslistum í borgarstjórnarkosningum. Með það í huga má vel færa rök fyrir því að lýðræðislegra sé að fagráð í stjórnkerfi borgarinnar séu a.m.k. að stærri hluta en nú er skipuð borgarfulltrúum sem sækja umboð sitt með beinum hætti til kjósenda. Því markmiði má vissulega ná með fjölgun borgarfulltrúa …“

Svo er rakið að því sé hægt að ná með öðrum hætti með því að fækka fagráðum eða fækka fulltrúum í þeim. Það er auðvitað ekki skynsamlegt að mínu mati því að þá er í raun verið að minnka lýðræðislega aðkomu. Mér finnst það því ekki vera í átt til þess að auka hér lýðræði.

Eins og ég sagði áðan eru borgarfulltrúar ekki sammála um þessa nálgun, hvorki nú né áður. Ég hef ekki hugmynd um hvaða skoðun nágrannasveitarfélögin hafa á þessu. Ekki er rakin umsögn þeirra um þetta mál enda snertir það fyrst og síðast borgina. En hin sveitarfélögin eru líka að vaxa þannig að það gæti allt eins orðið til þess að þau þyrftu að taka þetta til sín líka. Það sé óráð að gera þetta svona. Ég held að ef við gerum þetta ekki verði þetta ekki raunveruleikinn. Það er tilhneiging til þess að völdin haldist hjá þeim sem hafa þau. Ef þetta hefði verið heimilt myndi maður ætla að sveitarfélög myndu almennt fjölga hjá sér frekar en fækka af því að það er akkúrat það sem hefur gerst. Minni sveitarfélög hafa fækkað hjá sér. Það gerðist t.d. í mínu sveitarfélagi, fækkað var um tvo, sem er ekki skynsamlegt. Í hinum stóru sameiningum sem átt hafa sér stað víða um land eigum við að vera með fleiri fulltrúa en færri sem endurspegla sem flest sjónarmið alls staðar, hvort sem það er í hinum dreifðu byggðum eða hvort við tölum um borgina.

Ég vona svo sannarlega að þetta mál verði ekki samþykkt. Þetta er líka spurning um aðkomu beggja kynja. Konum fjölgaði við síðustu sveitarstjórnarkosningar, hlutfallið fór upp í 44%. Þeim hefur hins vegar ekki fjölgað jafn mikið þegar kemur að æðstu stöðunum, hvort sem það eru sveitar- eða bæjarstjórar, eða oddvitar. Þó að við búum ágætlega hér í borginni þá er það ekki svo alls staðar. Við eigum frekar að gefa fleirum tækifæri til þess að takast á við það verkefni að fara í gegnum kosningar til þess að fá lýðræðislegt umboð til þess að starfa í nefndum sveitarfélaga.

Hér í borginni erum við að reyna að hafa sem flest sjónarmið, m.a. í fagráðum, í hverfaráðum o.s.frv. til þess að auka aðkomu almennings. En fyrst og síðast held ég að ef fólk finnur það að fleiri hafa tækifæri og raunverulega möguleika til þess að geta náð kjöri, af því að það er nú þannig sem við upplifum það að við höfum frekar áhrif ef við náum kjöri frekar en ef við erum bara rödd úti í bæ sem við vonumst til að sé hlustað á, en það hefur auðvitað minna vægi. Mér finnst ekki vera færð nægjanleg rök fyrir því hér.

Hér er talað um að útgjöld hjá Reykjavíkurborg sparist en ekki er talað um að vitað sé hversu mikill sparnaðurinn verði. Eins og ég sagði áðan eru fyrstu varafulltrúar á launum. Það er ekkert sem segir að stjórnkerfið gæti ekki breyst ef frumvarpið næði fram að ganga. Það er líka áhugavert að horfa til þess að ef það er ekki skylda er það bara ekki gert. Ég held að við þurfum að standa í fæturna hér, þingmenn, sem erum þessu ekki samþykk. Ég veit ekki til þess að eftir þessu hafi sérstaklega verið óskað. Miðað við þann ágreining sem birtist í umsögn Reykjavíkurborgar finnst mér óeðlilegt að verið sé að fara fram með frumvarp sem ekki hefur verið eindregin ósk um hjá þeirri borgarstjórn sem nú situr eða sat síðast þegar þetta mál var lagt fram. Mér finnst þetta vera reginmistök og vona svo sannarlega að málið nái ekki fram að ganga.