146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[16:40]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Ég er einn 22 þingmanna Reykjavíkur. Við erum sjö fleiri en borgarfulltúarnir sem sinna sömu íbúum. Þó ímynda ég mér að verkefni borgarfulltrúa í þágu Reykjavíkurborgar og íbúa hennar séu oft ansi umfangsmikil, jafnvel umfangsmeiri en þau sem við Reykjavíkurþingmenn innum af hendi fyrir borgarbúa dags daglega, þannig mér þætti ekkert að því að borgarfulltrúar væru hið minnsta jafn margir og við Reykjavíkurþingmenn. Ég sé því þess vegna ekki alveg tilganginn með því að leggja til að þeim sé ekki fjölgað. Líka af því lýðræðið er svo skemmtilegt þegar það er fjölradda kór, þegar við erum 63 hérna saman í salnum er fjör, miklu frekar en þegar við erum 10 í salnum eins og núna. Eins og hefur verið komið inn á opnast á það með fjölgun borgarfulltrúa að fleiri sjónarmið komist að borðinu, ekki aðeins í formi fleiri einstaklinga frá þeim flokkum sem komast hvort eð er að heldur í formi nýrra flokka. Ný framboð komast inn þegar fleiri sæti eru í boði og þær raddir geta skipt máli fyrir framþróun lýðræðisins í borginni.

Mig langar aðeins að víkja að því hvernig er farið með orð í þessu frumvarpi hæstv. ráðherra. Hér segir í greinargerð, með leyfi forseta:

„Þá er frumvarpið efnislega skylt frumvarpi sem átta þingmenn fluttu á 145. þingi …“

Efnislega skylt, það gefur til kynna að fyrra frumvarp hafi verið rýnt og því hafi verið breytt dálítið og jafnvel betrumbætt. Eina breytingin sem ég sé er að talan 23 sem efri mörk á fjölda aðalmanna í sveitarfélögum með fleiri en 50.000 íbúa er í þessu frumvarpið orðin að 27. Ég hallast því frekar að því að segja að þetta frumvarp sé efnislega eins, ef ekki hið sama, þótt skeiki fjórum aðalmönnum.

Eins og hefur verið komið inn á í fyrri ræðum er önnur orðanotkun sem ég hnýt um, með leyfi forseta:

„Verði borgarfulltrúum ekki fjölgað má vænta þess að við það sparist útgjöld hjá Reykjavíkurborg.“

Maður spyr sig: Hvaðan koma þær væntingar?

Hér hefur verið flutt efnislega skylt mál áður og því liggur hreinlega fyrir ársgömul umsögn forsætisnefndar við það frumvarp þar sem segir, með leyfi forseta:

„Forsætisnefnd hefur unnið að mögulegum breytingum á störfum borgarstjórnar og starfsskyldum borgarfulltrúa vegna fyrirhugaðra breytinga á fjölda borgarfulltrúa vorið 2018 og hefur sú vinna meðal annars leitt í ljós að fjölgun borgarfulltrúa þarf ekki að hafa aukin fjárútlát í för með sér.“

Þess vegna spyr ég mig, frú forseti: Hvernig má vænta þess að útgjöld hjá Reykjavíkurborg sparist þegar snúið er við lagabókstaf sem Reykjavíkurborg sjálf segir að hafi engin aukin fjárútlát í för með sér? Hvernig má vænta þess þegar það stendur svart á hvítu að svo sé ekki? Það hefði kannski mátt taka upp tólið og hringja í Reykjavíkurborg. Það er oft erfitt að ástunda samráð í stórum og umfangsmiklum málum. Vissulega eru sveitarstjórnarlög mikill lagabálkur, en eins og fram hefur komið snýr þessi breyting að einu einasta sveitarfélagi sem er meira að segja í næsta húsi. Það er ekki erfitt að eiga samráð við þennan eina aðila og spyrja hvort megi vænta aukinna fjárútláta eða hvort þessi setning í greinargerð hæstv. ráðherra sé fullkominn þvættingur, sem hún virðist vera. Þetta er borið hér á borð.

Auðvitað eru þessar tölur og mörk aðeins mannanna verk eins og önnur lög. Það er svo sem ekkert sem segir að við verðum að fjölga aðalmönnum í sveitarstjórn við þær íbúatölur sem gert er í 11. gr. sveitarstjórnarlaga í dag. Hvers eiga t.d. Kópavogur og Hafnarfjörður að gjalda sem eru millistór sveitarfélög með 28.000 og 35.000 íbúa hvort? Hvers eiga þau að gjalda að vera ekki hleypt upp um flokk, sérstaklega þegar við erum með í 11. gr. fjórða bilið, sveitarfélög með íbúa á bilinu 50.000–99.999 og af þeirri stærð er ekki eitt einasta sveitarfélag í landinu. Ef við erum að búa til fimm þrepa kerfi, sem ráðherra vill reyndar breyta í fjögurra þrepa, af hverju notum við þau ekki öll? Ef ráðherra vill breyta bilunum, af hverju vill hann ekki láta þau endurspegla betur raunveruleika sveitarfélaganna í landinu?

Það eru t.d. sveitarfélög þarna á bilinu 1.000–2.000 sem mætti hópa saman en er ekki gert eða þau sem eru farin að slaga hátt í 10.000. Af hverju má ekki kljúfa það í tvennt og fjölga t.d. sveitarstjórnarfólki í Árborg og Mosfellsbæ? Hefur þetta verið skoðað? Eða er tilgangur þessa frumvarps ekki af málefnalegum toga heldur eingöngu vegna þess, eins og fram kom í máli hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur, vegna þess að þeir átta þingmenn sem minnst er á í greinargerðinni eru með það á perunni að hlutverk þeirra á Alþingi sé að vera í andstöðu við meiri hluta í borgarstjórn til að hjálpa félögum sínum í sveitarstjórnarkosningum nú að ári?

Þá spyr maður sig: Hvað finnst samstarfsflokkunum? Og sérstaklega: Hvað finnst Bjartri framtíð, sem er í meiri hluta í Reykjavíkurborg? Hæstv. ráðherra segir að þess megi vænta að þessi breyting muni spara útgjöld hjá Reykjavíkurborg en það er þvert ofan í það sem meiri hlutinn í Reykjavíkurborg segir, þar sem Björt framtíð situr einmitt. Hvað finnst þingmönnum Bjartrar framtíðar um þetta bull, að setja nafn sitt við það að hér sé lagt fram frumvarp gegn meiri hluta Bjartrar framtíðar í borginni þar sem hún situr ásamt öðrum ágætum flokkum, allt til þess að Sjálfstæðismönnum í borginni líði betur í kosningunum?

Ég tek undir með þeim sem hafa lagt til að þetta mál sé sett í tætarann, hvort sem það er með því að vera dregið til baka eða með því einfaldlega að það gleymist í störfum þingsins. Ég vona að svo verði.