146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[16:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Sem nefndarmaður í fjárlaganefnd langar mig til þess að gera athugasemdir varðandi kostnaðarmatið. Samkvæmt lögum um opinber fjármál skal hver ráðherra leggja mat á áhrif stjórnarfrumvarpa, þar með fjárhagsleg áhrif. Í lögum um opinber fjármál tölum við um opinber fjármál í heild sinni, þar á meðal sveitarfélaga sem fram koma í fjármálastefnunni. Ég auglýsi eftir kostnaðarmati með þessu frumvarpi. Miðað við það sem talað er um í kostnaðarmati, að ætla megi að þetta spari, þá er það í fyrsta lagi ekki gott kostnaðarmat, og í öðru lagi er það ekki rétt, miðað við gögn frá Reykjavíkurborg. Það finnst mér rosalega alvarlegt, svo ég taki ekki sterkar til orða en það.

Frumvarpið var samið í innanríkisráðuneytinu og efni þess hefur verið kynnt forsvarsmönnum Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Eins og segir í greinargerð, með leyfi forseta, kemur þetta frumvarp ofan frá og niður. Þó að það sé með einhverju skrauti um frelsi sveitarfélaga til að fá að stjórna fjölda fulltrúa þá er ákveðin blekking þar í gangi því að þetta er röng leið til þess að koma á svona breytingum. Við gerum það ekki með boðum að ofan. Það koma beiðnir um það frá lýðræðislegra umhverfi, þær koma frá fólki eða sveitarfélögunum í heild sinni, því að viljum hafa sameiginlegt kerfi yfir allt landið sem allir eru sáttir um. Við viljum ekki sjá að það sé frjálst val um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa þar sem fjöldi sveitarstjórnarfulltrúa rokkar, ég veit ekki um hversu mikið á milli kjörtímabila.

Við vitum líka öll að færri sveitarstjórnarfulltrúar þýðir að það er í rauninni hentugra fyrir stærri flokka þar sem færri raddir komast að. Og deilingarstuðullinn á því að komast inn og komast að og vera hluti af einhverju, fulltrúi fólksins, verður mun erfiðari. Við ættum að stefna að fleiri flokkum eins og við höfum fengið á Alþingi, fleiri röddum, ekki færri.

Ekki er kallað eftir þessu frumvarpi. Það er sérstaklega sett til höfuðs einu sveitarfélagi með rökstuðningi sem ekki stenst og greinargerð sem ekki fylgir lögum um opinber fjármál um kostnaðarmat. Þetta er fáránlegt. Ég krefst þess að ráðherra útskýri af hverju ekki er einu sinni farið eftir lögum um kostnaðarmat samkvæmt lögum um opinber fjármál.