146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[16:53]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Í fyrsta lagi voru núverandi lög borin fram sem stjórnarfrumvarp, lög sem settu skyldur á um það að borgarfulltrúum skyldi fjölgað, ekki að gefa sveitarfélögum neinn valkost á því að fjölga frá því sem nú er, heldur skyldi þeim fjölgað. Svo er það gert hér að einhverju tortryggilegu máli þegar lagt er til að þetta sé ákvörðun sveitarstjórnanna en ekki Alþingis. Það er talað eins og verið sé að þrengja fulltrúalýðræði og að baki þessu máli séu einhver annarleg sjónarmið. Það er sagt í ræðum hv. þingmanna að verið sé að fækka borgarfulltrúum. Ég bið hv. þingmenn að lesa heima, virðulegur forseti, vegna þess að þetta hljómar eins og það fólk sem hefur talað, alla vega sumt af því, hafi hreinlega ekki lesið málið sem er hér á borðum. Það er ekki verið að fækka borgarfulltrúum með þessu frumvarpi. Það er einfaldlega verið að færa það til ákvörðunar á sveitarstjórnarstiginu hvort sveitarfélagið og meiri hlutinn þar telji rétt að fjölga sveitarstjórnarfulltrúum.

Það er spurt að því hvort mér þyki rétt að fjölga borgarfulltrúum eða ekki. Ég ætla ekki að leyfa mér að hafa neina skoðun á því í sjálfu sér. En ég ætla að hafa skoðun á því að það sé ekki í mínu valdi að setja einhvern enn þá þrengri ramma en var. Þetta mál var umdeilt þegar það kom fram sem stjórnarfrumvarp á sínum tíma. Það var ekki eins og þetta væri óumdeilt mál og þarf engum að bregða við að undið sé ofan af því.

Það er eins og hv. þingmenn treysti ekki borgarfulltrúum til að taka þessa ákvörðun. Það er sagt að þetta frumvarp sé skreytt með skrauti um aukið lýðræði. Það felst aukið lýðræði í þessari breytingu, ég held að það sé engum blöðum um það að fletta. Þegar það er lagt í hendurnar á borgarstjórn, lýðræðislega kjörnum fulltrúum Reykjavíkurborgar í þessu tilfelli, að taka ákvörðun um það hversu marga borgarfulltrúa þeir telji eiga að vera þá hlýtur það að vera aukið lýðræði, það hlýtur að vera aukið lýðræði til sveitarstjórnarstigsins. Það er miðað þarna við þær tölur sem hafa verið nefndar.

Það var nefnt hvort menn hafi ekki efni á fulltrúalýðræði með því að fjölga. Það er gert að mikilli umræðu hvort þetta hafi viðbótarkostnað í för með sér. Í umsögn borgarinnar á sínum tíma þegar frumvarpið varð að lögum nr. 138/2011 sagði m.a., með leyfi forseta:

„Borgarfulltrúar Reykjavíkurborgar eru ekki á einu máli um hvort eða hvaða afstöðu rétt væri að taka til tillögu þessa ákvæðis frumvarpsins um fjölgun fulltrúa í sveitarstjórnum. […] fjölgun kjörinna fulltrúa muni hafa aukinn kostnað í för með sér og það geti ekki verið réttlætanlegt með vísun til niðurskurðar hjá sveitarfélögum og þröngrar fjárhagsstöðu þeirra almennt.“

Það er nefnt alveg sérstaklega í umsögn borgarinnar á þessum tíma að þetta muni hafa aukinn kostnað í för með sér. Það kemur í ljós hvað verður núna. Málið er að fara í þinglega meðferð, menn fá boð um að koma fyrir þingnefndina og gera grein fyrir skoðunum sínum. Í því felst hin þinglega meðferð. Ef það kemur í ljós að menn telja þetta engan kostnaðarauka þá kemur það í ljós.

Við höfðum samband við Reykjavíkurborg út af þessu máli núna og fengum í raun þessi svör. En svo eru þau svör að um það séu skiptar skoðanir. Um það eru skiptar skoðanir. Þegar talað er eftir kostnaðarmati á þessu frumvarpi þá er í sjálfu sér ekkert að kostnaðarmeta í frumvarpinu. Það er einfaldlega þannig að hér er lagt til að sveitarfélagið hafi meira ráðrúm, svigrúm til að taka ákvarðanir um fjölgun borgarfulltrúa. Það er ekki verið að tala um að fækka borgarfulltrúum, það er ekki verið að leggja til að þeim verði fjölgað með lögum, eins og liggur fyrir í gildandi lögum, þannig að frumvarpið er ívilnandi að því leyti og það sem slíkt hefur engan kostnaðarauka í för með sér. Það verður ákvörðun sveitarstjórnarinnar sem hefur þær afleiðingar á hvorn veginn sem er.

Það var talað um að nauðsynlegt væri að fjölga fulltrúum í sveitarstjórnum í landinu til þess að jafna kynjahlutföll. Í þeim málum hefur náðst mjög góður árangur á undanförnum árum. Í Reykjavíkurborg eru borgarfulltrúar átta karlmenn og sjö konur. Á landinu öllu eru 52,5% sveitarstjórnarmanna karlar og 47,5% konur. Það geta því varla talist rök í málinu að fjölga þurfi sveitarstjórnarmönnum til þess að jafnan þann mun. Hann verður varla mikið minni, á hvorn sem væri hallað.

Þau sjónarmið hafa heyrst, reyndar sérstaklega hjá minni sveitarfélögum mörgum hverjum og hafa verið til umræðu á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga, að ástæða sé til að fækka enn frekar kjörnum sveitarstjórnarfulltrúum víða til þess að geta borgað þeim betur til að sinna störfunum vel og gefa sér góðan tíma í störf sem sveitarstjórnarfulltrúar, það séu rök í málinu miklu frekar en hitt. Það eru dæmi um það sem við vitum í ráðuneytinu að sveitarfélög eru að skoða þær leiðir núna, fyrir næstu kosningar, að leggja til fækkun á sveitarstjórnarfulltrúum til þess að geta greitt betur af því takmarkaða fé sem þeir hafa fyrir þau störf sem sveitarstjórnarfulltrúarnir vinna.

Hæstv. forseti. Aðeins í lokin. Af sinni vel þekktu lýðræðisást les hv. þm. Svandís Svavarsdóttir mönnum pistilinn og eru hótanir látnar fara hér fram um að þetta verði aldrei afgreitt o.s.frv. og ráðherrann skuli bara draga þetta til baka og ekki vera að efna til ófriðar og annað slíkt. Ég tel það varla svara vert. Ég veit ekki hvaða ófriður á að felast í því að leggja það hreinlega til að það sé ákvörðunarréttur yfirvalda í Reykjavíkurborg hvort fjölga eigi sveitarstjórnarfulltrúum þar fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar. Það getur ekki verið eitthvert skrum með lýðræðið að afnema lagaskylduna til þess að stíga þetta skref og segja: Ef þið teljið, kjörnir fulltrúar í Reykjavíkurborg, að þetta þurfi, að það sé réttlætanlegt og að fjölga eigi borgarfulltrúum þá gerið þið það. Þeir hafa alla heimild til þess áfram í lögunum. Ég skil ekki annað en að þetta mál hljóti að fá málefnalega umfjöllun á vettvangi þingsins og verði afgreitt með hvaða hætti sem það verður í vor.