146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er svo sem hægt að reikna öll mál sem koma fyrir þingið út frá mjög mismunandi forsendum sem við gefum okkur, hinum og þessum forsendum. Ef það hefði átt að leggjast í útreikning og kostnaðarmat á því ef borgarfulltrúum yrði fjölgað upp í hámarkið sem gert er grein fyrir innan rammans í lögunum eins og þau munu standa eftir þessar breytingar, átti það þá að vera reiknað út miðað við fjölgun á hverjum og einum, einhverjum stigum? Ég held að það sé ekki verkefni okkar. Ég tel ekki að það þurfi eitthvert ítarlegt kostnaðarmat af hálfu þingsins í þessu máli. Kostnaðarmatið fer auðvitað fram hjá sveitarfélögum sem á grundvelli laga taka ákvarðanir um, eins og í þessu tilfelli, fjölgun borgarfulltrúa. Við getum verið minnug þess að á sínum tíma var borgarfulltrúum fjölgað. Menn töldu síðan það ekki hafa verið nauðsynlegt. Þeim var fækkað aftur til þess að spara m.a. og draga úr kostnaði. Þetta var gert á sínum tíma.

Málið snýst fyrst og fremst um að leyfa kjörnum fulltrúum í borginni að taka þessar ákvarðanir á þeim grunni og með þær upplýsingar í farvatninu hvaða áhrif það muni hafa á rekstur borgarinnar á hverjum tíma, alveg eins og ég nefndi áðan að það eru sveitarfélög sem við vitum af í ráðuneytinu sem eru að skoða þessi mál hjá sér og eru að tala um að fækka jafnvel í sveitarstjórnum til þess að geta greitt þeim sem eftir sitja hærri laun til þess að sinna þeim verkum sem þeir taka að sér.