146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:10]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það horfir nú hver sínum gleraugum á lýðræðið í þessu máli, ég verð að segja það. Auðvitað er þetta ekkert prívatáhugamál mitt. En svona er umræðan, eins og oft er hér í þinginu, að persónugera hlutina. Við þekkjum frá fyrri árum að það hefur verið gert með ákaflega ósmekklegum hætti. Það er leikspil þeirra sem hafa málefnin ekki alveg á hreinu að mínu mati. Við skulum leyfa þeim að spila eftir þeim leikreglum sem þeir setja sér í þeim efnum.

Að mati hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar á þetta sem sagt að vera frumvarp sem þrengir að fulltrúalýðræðinu. (SJS: Já.) Það þrengir að fulltrúalýðræðinu hér á Alþingi (SJS: Nei.) að … (BjG: Nei, að íbúum. … )— Já, væntanlega þeim sem kusu hér til Alþingis. (BjG: Og kjósa.) Já, er það þannig. Ég lít á þetta allt öðrum augum. Ég lít einmitt á þetta þannig að við séum að færa það í hendur þeirra fulltrúa sem íbúar höfuðborgarinnar kjósa til þess að vera í forsvari fyrir sig í sveitarstjórn, það sé í þeirra höndum að taka ákvörðun um það og bera það undir íbúa í borginni.

Við erum að auka lýðræðið að mínu mati með þessu máli. Við erum ekki að segja hér á hinu háa Alþingi: Ja, svona skal þetta vera hjá ykkur. Þið eruð með 15 fulltrúa í dag og þið skuluð fjölga þeim, eins og sagt er í núverandi löggjöf. Það er að mínu mati að hafa áhrif á lýðræðið, að leyfa ekki borgarfulltrúum að koma að þeirri ákvörðun, taka þessa ákvörðun sjálfir, standa með henni og við hana gagnvart kjósendum sínum. Með þessari breytingu erum við bara að færa valdið til þeirra og þeir geta þá gert það upp við sína kjósendur í borginni að (Forseti hringir.) það þurfi að fjölga borgarfulltrúum. Það er bara þeirra ákvörðun.