146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:22]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég er svo sem ekkert hissa á að það skuli vera skiptar skoðanir milli mín og þingmanna Vinstri grænna, sem hafa fyrst og fremst haft sig í frammi í umræðu um þetta mál. Það var alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon las hér upp úr umsögn um 11. gr. laganna, að það væri þannig í reynd í Reykjavík að varamenn væru mjög miklir þátttakendur í nefndastarfi og öðru á vegum borgarinnar. Nefndirnar eru kjörnar af sveitarstjórninni. Þær eru því kosnar á pólitískum grundvelli og ekkert óeðlilegt við að varamenn séu kjörnir til starfa í einhverjum nefndum. Þar kemur umboðið frá sveitarstjórn. Í þeim kafla um 11. gr. sem hv. þingmaður las ekki segir einnig, með leyfi forseta:

„Mikilvægt er þó einnig að hafa í huga að það stjórnskipulag sem frumvarpið gerir ráð fyrir að gildi um starfsemi sveitarfélaga gerir ekki ráð fyrir mjög stórum sveitarstjórnum enda byggt á því að sveitarstjórnin sjálf taki allar meiri háttar ákvarðanir um rekstur og stjórnsýslu sveitarfélagsins og beri á þeim ábyrgð.“

Ég tel nú bara að þessi breyting, að færa þetta ákvörðunarvald til sveitarfélagsins í þessu tilfelli, samrýmist ágætlega því sem fram kemur hér.