146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:28]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra las upp úr umsögninni um 11. gr. Þar er líka vísað til þess að ekki sé almennt gert ráð fyrir mjög stórum sveitarstjórnum. Þar tel ég að sé vísað til sveitarstjórna eins og þekktar eru í nágrannalöndunum, mjög fjölmennra. En hæstv. ráðherra las hins vegar ekki það sem segir í málsgreininni á undan í beinu framhaldi þar sem rætt er um að í reynd megi gera ráð fyrir að virkir borgarfulltrúar séu nær 30 en 15. Þar segir nefnilega:

„Ákvæðið getur haft áhrif á fulltrúafjölda í öðrum sveitarfélögum, en þó fyrst og fremst aðeins þeim stærstu. Það er í samræmi við þá lýðræðislegu hugsun sem býr að baki sveitarstjórnarstiginu og reglum um kosningar til sveitarstjórna að sveitarstjórnarfulltrúar séu fulltrúar íbúa sveitarfélagsins og geti þar með á virkan hátt endurspeglað vilja íbúanna.“

Af einhverjum ástæðum sleppti ráðherrann þessu úr sínum upplestri úr skýringunni við greinina. Þarna er auðvitað verið að færa fram lýðræðisrökin fyrir þessum ákvæðum sem eru í 11. gr.

Síðan er það rétt sem fram kom í orðaskiptum áðan, við gætum rætt um kosningafyrirkomulagið til Alþingis og hinn ólýðræðislega, háa 5% þröskuld sem leiðir til þess að framboð sem fær 4,99% atkvæða og á vel fyrir þremur þingmönnum fær engan. Hvað gerist þá? Stærstu flokkarnir fá uppbótarsæti. Og nákvæmlega það sama gerist í sveitarstjórnum ef menn þröngva fjölda kjörinna fulltrúa niður. Þá aukast líkurnar á að atkvæði detti dauð af minni framboðum og það verði í þágu stærri flokka og oftast ríkjandi valdaflokka í kerfinu. Það er það sem ég á við þegar ég segi að verið sé að þrengja hér að grundvallarlýðræði. Menn vilja bakka þessu í gömlu (Forseti hringir.) hugsunina í stað þess að mæta nýjum tímum með því að hafa þetta opnara og bjóða fjölbreytnina velkomna, þar á meðal inn í sveitarstjórnirnar.