146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[17:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Vandamálið sem þetta frumvarp reynir að glíma við er vissulega alvarlegt og því er markmiðið með því göfugt. Þótt allar framfarir stafi að breytingum þá leiða ekki allar breytingar endilega til framfara. Ég er sammála því markmiði að útrýma óútskýrðum launamun, en spurningin er hvort þessi lausn nái því markmiði og ef svo er hvort það séu einhverjar hliðarverkanir sem huga þarf að.

Ég spurði í gær hvort ákvæði í þessu frumvarpi, 25 starfsmenn eða aðrir þröskuldar eða fjöldaskilyrðingar, myndu letja fyrirtæki til þess að færa starfsmannafjölda sinn úr neðri hóp í efri hóp. Ég fékk þau svör að það væri ólíklegt. Þá duttu mér í hug verktakar. Hvaða áhrif hafa verktakar mögulega á fyrirtæki við þessar aðstæður? Hvaða áhrif hafa verktakar innan fyrirtækisins á jafnlaunamat þeirra fyrirtækja sem vottunin snýr að? Eru þeir taldir með? Hvernig er þá umgjörðin utan um það að borga laun? Það eru þá væntanlega ekki laun heldur greiðsla fyrir vinnu. Við þekkjum það að á ýmsum stöðum eru allir sem eru í ræstingum bara verktakar þegar það gæti mögulega verið launafólk innan stærra svæðis.

Ég gerði einnig athugasemdir við að staðallinn væri lokaður. Ég tel það vera mjög óeðlilegt að verið sé að setja lög og að staðallinn sé ekki öllum opinn. Þegar við setjum lög sem vísar í texta sem ekki er hægt að lesa er það ekki í þágu gagnsæis og ekki í þágu almennings sem á að geta skilið hvernig kerfið virkar hérna.

Ég fór í gegnum frumvarpið. Það voru ýmsir þættir þar sem mér fannst áhugavert að skoða. Það kom mér pínulítið á óvart. Ég rak augun í að það eru margir aðilar sem þurfa að koma að því ferli að jafnlaunavotta fyrirtæki. Það er til að byrja með vottunaraðili, það er Jafnréttisstofa, það er einhver hagsmunaaðili, sem ég sé ekki alveg nógu vel úr frumvarpinu hver er. Mér þætti vænt um að fá skilgreiningar á því, en þessi hagsmunaaðili gerir úttekt á jafnlaunakerfi. Ég veit ekki alveg hver hann er. Síðan eru Samtök aðila vinnumarkaðarins sem fylgjast með því að allir fari í vottun og þau kalla eftir upplýsingum. Það væri gaman að vita hvaða upplýsingum þau geta kallað eftir, því að sagt er að þau ákveði það einfaldlega. Svo er það ráðherra með reglugerð. Það er Einkaleyfastofa með löggildingu vottunaraðilanna. Það eru kjarasamningar, þegar mismunandi aðilar semja um kaup og kjör. Þar er einn flötur þar sem fjallað er um þessi mál. Það er Endurmenntun Háskóla Íslands með námskeið fyrir vottunaraðila. Það er Staðlaráð Íslands og að lokum Alþingi með setningu þessara laga. Tíu aðilar koma að þessu ferli í heildina. Ég velti fyrir mér hversu lipurt það sé í samskiptum, hvort allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar festist á einhverjum stöðum og hvort allt flæðið virki með svona marga aðila.

Að þessum almennu athugasemdum loknum þá vil ég nefna að ég fann ákveðinn flöt á málinu sem mér finnst vanta í frumvarpið. Að mínu mati og fyrir sjálfan mig er það aðalatriðið sem ég þarf að fá á hreint til þess að ég geti tekið ákvörðun um hvort ég geti stutt þetta frumvarp eða ekki. Það er spurningin um þau gögn sem safnað verður um fólk. Ég veit ekki hvaða gögnum verður safnað og hver safnar gögnunum, hvar þau verða geymd, hversu lengi og þar fram eftir götunum, og hvort persónuverndarsjónarmiðum sé auðveldlega framfylgt.

Hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir stakk upp á því að skatturinn færi með þessi mál. Að vissu leyti hefur skatturinn beinar upplýsingar um tekjuskatt og hefur einhver samlegðaráhrif varðandi það að sannvotta að gögnin sem upplýsingarnar sem koma um jafnlaunavottunina séu sönn. En hversu gott er að hafa þessi samlegðaráhrif persónuverndarlega séð? Við stöndum í rauninni í þessu, að því er ég best fæ séð, í ákveðinni togstreitu á milli þessara tveggja sjónarmiða, að laun eigi annars vegar að vera leynileg og persónuverndandi gögn og hins vegar að það sé engin launaleynd og að allir ættu að geta komist að launum allra. Einhvers staðar þarna á bilinu liggur menningin.

Ég er ekki viss um að við séum komin nógu langt í umræðunni um það hvar okkar þægilega umhverfi er í því máli. Við erum að togast á um hvort birta eigi útsvarsseðla, þannig að það er þrætuepli þar. Ég held að það geti verið mjög heppilegt fyrir frumvarp af þessari stærð að klára þá umræðu fyrst af því að hún hefur svo mikil áhrif á það hvernig gögnum og hvaða gögnum er safnað til þess að hægt sé að votta um sannleiksgildi skírteinisins sem fyrirtækin fá sem eru jafnlaunavottuð.

Í kjölfarið gæti ég séð að þarna sé að lokum komin einhver gagnagrunnur um laun 70% launafólks, líklega ekki með nöfnum, þau yrðu flokkuð á starfsheiti og fyrirtæki þannig að það er ekki langt þar á milli að tengja persónu við launaupplýsingar. Ég set því stórt varúðarmerki, stóran rauðan fána við þetta atriði sem mér finnst algjörlega vanta í lögin. Ég get ekki gert það upp við mig hvort þetta frumvarp sé hollt fyrir samfélagið án þess að vita hvernig farið verður með þessar upplýsingar.