146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[18:42]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Það hefur verið áhugavert að hlusta á umræðuna um þetta mikilvæga mál. Málið grundvallast á þeim samfélagssáttmála sem við höfum komið okkur saman um, stjórnarskrá Íslands, um það að jafnrétti kynjanna sé eitthvað sem við viljum að sé til staðar í íslensku samfélagi. Hér hefur aðeins verið rætt um bæði kosti og galla þeirrar tillögu sem liggur fyrir en ég ætla að fá, með leyfi forseta, að lesa upp úr skýrslu um stöðu karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði sem aðgerðahópur um launajafnrétti vann og skilaði árið 2015. Þetta er upphafsmálsgreinin, með leyfi forseta:

„Jafnrétti kynjanna er ekki einungis réttlætismál, heldur er það ekki síður efnahagsmál. Rannsóknir hafa sýnt að með því að auka jafnrétti og bæta stöðu kvenna er hægt að auka hagvöxt og efnahagsstöðugleika (Slotsky, 2006). Þá hefur einnig verið sýnt fram á að fyrirtækjum sem stjórnað er af bæði körlum og konum vegnar betur (Elborgh-Woytek o.fl., 2013).“

Það er því ekki aðeins rétt heldur einfaldlega skynsamlegt að tryggja jafnrétti kynjanna og launajafnrétti hlýtur að sjálfsögðu að vera grundvallaratriði. Þetta er ein af leiðunum í áttina að því.

Þegar tillagan kom fyrst fram um að lögfesta jafnlaunastaðalinn eða jafnlaunavottun, eins og hér er talað um, skal ég viðurkenna að ég hafði áhyggjur af því í ljósi þess að við höfum unnið að því árum saman að búa til staðalinn, þróa hann, tryggja að það séu vottunaraðilar, að fyrirtæki og stofnanir séu tilbúin að fara í gegnum hann, að þetta gæti verið íþyngjandi. Það hefur komið fram á fundum hjá þeim fyrsta sem fór í gegnum ÍST 85 staðalinn, tollstjóraembættinu, að þetta er mikil vinna. Ég vil fá að hrósa hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra fyrir það að ég tel að sú útfærsla og sú tillaga sem er komin fram komi til móts við þetta. Það er líka hugað að því að aðilar vinnumarkaðarins hafa leitt þessa vinnu, þeir hafa keyrt hana áfram og eitt af stærstu verkalýðsfélögum okkar, VR, hefur tekið upp ákveðna tegund af jafnlaunavottun sem er með þessu frumvarpið tekið tillit til. Það er ekki hvað síst 3. gr. þar sem er talað um útfærslurnar á fjöldanum. Almenna reglan er að fyrirtæki eða stofnun þar sem 25 eða fleiri starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli skulu öðlast vottun og horfa til þeirra krafna sem koma fram í staðlinum ÍST 85, sem kostar tæpar 11 þús. kr. og við gerum ráð fyrir því að menn hafi efni á því, og fara síðan, sem getur reynst umtalsvert meiri vinna og kostnaður, í gegnum það ferli að fá vottun frá löggiltum vottunaraðila.

Í 2. mgr. er talað um að samtökum aðila vinnumarkaðarins sé heimilt að semja svo um í kjarasamningum að úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækis eða stofnunar þar sem 25–99 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli geti fengið þessa staðfestingu. Síðan er líka hugað að því að það muni taka tíma að innleiða þetta og fyrir fyrirtækin að taka það upp. Þetta tel ég vera jákvæða útfærslu. Það hefur aðeins verið rætt í fyrri ræðum þar sem menn veltu fyrir sér samráðinu. Það kemur einmitt fram í greinargerðinni að þetta hafi verið unnið, sem ég tel mjög mikilvægt, í samráði við samtök aðila vinnumarkaðarins og aðgerðahóp stjórnvalda og samtök aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynjanna. Í aðgerðahópnum sitja fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi háskólamanna, BSRB, fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum atvinnulífsins. Talað er um að sérstakt samráð hafi verið haft við aðila vinnumarkaðarins um heimild þeirra til að semja svo um í kjarasamningum að við úttekt á jafnlaunakerfi fyrirtækja og stofnunar þar sem 25–95 starfsmenn starfa að jafnaði á ársgrundvelli hafi fyrirtæki eða stofnun val um hvort úttekt fari fram á grundvelli ÍST 85 staðalsins eða með þeirri staðfestingu sem hér er talað um.

Ég velti fyrir mér hvort það sé möguleiki að koma enn frekar til móts við fyrirtækin að einhverju leyti með því að taka tillit til þessa kostnaðar. Það verður mjög mikilvægt að sá kostnaður sem fellur til sé frádráttarbær — og það er ánægjulegt að hafa hæstv. fjármálaráðherra hér — og það er eitt af því sem væri hægt að huga að. Að mínu mati mun þetta auka hagvöxt og efnahagsstöðugleika, eins og ég sagði í upphafi, af því að fyrirtæki og stofnanir sem stjórnað er af bæði körlum og konum vegnar einfaldlega betur. Það er mín persónulega reynsla og rannsóknir hafa sýnt að þannig er þegar við erum með tiltölulega jöfn hlutföll kynjanna. Það eru bestu vinnustaðirnir sem ég hef unnið á.

Það er einkar ánægjulegt að geta staðið hér og sagt að það að vera þingmaður á Alþingi Íslendinga er ekki lengur karlastarf. Það þurfa að vera 75% karla til þess að starf geti flokkast sem karlastarf og öfugt þegar sama hlutfall á við um konur.

Það er með þetta eins og svo margt annað sem við höfum gert og bundið miklar vonir við að ég tel að við séum ekki komin með endanlegu lausnina. Það kemur skýrt fram í skýrslunni sem ég byrjaði á að vitna í um stöðu kvenna á íslenskum vinnumarkaði, sem aðgerðahópurinn vann, að launamuninn — og þetta kom einnig fram í skýrslu sem ég mælti fyrir á jafnréttisþingi í nóvember 2015 — mætti að verulegu leyti rekja til kynjaskiptingar starfa á vinnumarkaði. Við erum með hvað mesta kynjaskiptingu á vinnumarkaði af þeim löndum sem við berum okkur saman við. Það er líka töluverð kynjaskipting annars staðar á Norðurlöndum en hún er mest hjá okkur. Það er talað um að það eigi bæði við um lóðrétta skiptingu eftir starfsstéttum og lárétta skiptingu vinnumarkaðar eftir atvinnugreinum. Þess vegna er mjög mikilvægt að unnið verði að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Ég vil eindregið hvetja ráðherrann til að leggja mjög mikla áherslu á það að hvernig við getum breytt náms- og starfsvali ungs fólks á Íslandi þannig að við drögum úr kynjaskiptingunni.

Fljótlega eftir að ég tók við sem ráðherra jafnréttismála á síðasta kjörtímabili voru haldnir tveir fundir á vegum aðgerðahópsins, annars vegar um karla í kvennastörfum og hins vegar konur í karlastörfum. Það var áhugavert að heyra í einstaklingum sem höfðu brotist út úr kassanum, valið óhefðbundin störf. Bæði konur og karlar á fundunum notuðu sömu orð til að lýsa því hvernig það væri að vera eini karlinn á fjölmennum kvennavinnustað og hvernig það væri að vera eina konan á fjölmennum karlavinnustað. Það er alveg á hreinu að þau voru ekki búin að tala saman og ákveða hvernig þau ætluðu að lýsa þessu, upplifunin var einfaldlega nákvæmlega sú sama. Það er erfitt að vera frumkvöðull. Það krefst ákveðins persónuleika, má segja, að ryðja brautina. Þess vegna er svo mikilvægt, af því að ekki eru allir sem vilja vera frumkvöðlar, að við vinnum markvisst í því að breyta því.

Það kemur líka fram í þessum gögnum að meginástæðan fyrir því að karlar horfi ekki til svokallaðra umönnunarstarfa eða kennslu sé launin. En ég held að það sé ekki bara ástæðan vegna þess að við sjáum að karlar með lægri laun velja ekki að fara í störf þar sem konur eru í meiri hluta þótt þeir fengju hærri laun. Ég held því að þetta sé mun flóknara og erfiðara að skýra, eins og það er almennt að skýra ástæður mismununar, hvernig viðhorf okkar og viðbrögð þróast.

Að lokum vil í ræðu minni nefna hin atriðin sem hefur verið talað um að við verðum að huga að. Það er m.a. staða kvenna almennt í valdastöðum. Ég vil hvetja ríkisstjórnina eindregið til að huga að því að ekki er jafnt hlutfall karla og kvenna í ríkisstjórninni. Við erum með örfáar konur sem eru stjórnendur í fyrirtækjum á Íslandi. Þetta eru þættir sem skipta verulega miklu máli að við höldum áfram að huga að. Hér hefur fæðingarorlofið verið nefnt. Það er verulegt áhyggjuefni þegar maður heyrir unga ráðherra í dag tala um að þeir séu ekki vissir hvort það sé möguleiki fyrir viðkomandi að taka fæðingarorlof. Þannig á það ekki að vera árið 2017. Til þess að vera fyrirmynd skiptir miklu að senda út þau skilaboð að fæðingarorlof sé eitthvað sem bæði karlar og konur taka, sem foreldrar taka.

Það hefur verið talað um hvernig við getum stytt vinnutímann og minnkað álagið á íslenskar fjölskyldur og hvernig getum jafnt og þétt unnið að því að karlar taki til jafns við konur ábyrgð á heimilisstörfunum, því að rannsóknir sýna svo sannarlega að svo virðist ekki vera. Það hafa meira að segja komið fram rannsóknir um að aðeins örfáir karlmenn á Íslandi kunni á þvottavél. Ég lofa því að þetta er tiltölulega einfalt tæki sem virkar ágætlega.

Síðan vil ég svo leggja áherslu á að það eru önnur frumvörp sem hæstv. félagsmálaráðherra er að koma með hér sem snúa að banni við mismunun á vinnumarkaði og þá getur svona staðall líka verið tæki til þess að vinna gegn mismunun á grundvelli annarra mismununarþátta en kyns. Það er hægt að horfa á þætti á borð við uppruna. Það er hægt að horfa á þætti eins og kynhneigð og fötlun. Það hefur komið fram að þetta eru þættir þar sem er mismunað hvað varðar laun og framgang í starfi.

Ég vænti þess að þetta mál fari til allsherjar- og menntamálanefndar þar sem ég sit. Ég hlakka til að takast á við þetta verkefni og fara vel yfir þær athugasemdir sem berast. Kannski sjáum tækifæri til að bæta málið þannig að það skili árangri fyrir einstaklingana, fyrir karla og konur, fyrir fyrirtækin, stofnanirnar og samfélagið í heild.