146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[19:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að fá þessa spurningu vegna þess að ekki er liðin vika frá því að ég skipaði sérstakan starfshóp til að kanna mismuninn á launakerfum hins opinbera og á almenna vinnumarkaðnum. Ég veit að þetta er ekki nákvæmlega það sem hv. þingmaður spurði um, en það er hins vegar svo að með samkomulagi ríkis og stéttarfélaga opinberra starfsmanna síðastliðið haust var gerð sérstök bókun um að jafna ætti kjör á almennum vinnumarkaði og hjá því opinbera. Eitt skref í þá átt var að jafna lífeyrisréttindin og það var gert með aðgerðum síðastliðið haust. Næsta skref var að skipa starfshóp sem er skipaður fulltrúum stéttarfélaga opinberra starfsmanna, sérfræðingum úr ráðuneytinu og frá Sambandi sveitarfélaga og úr háskólasamfélaginu, til að finna þá aðferðafræði sem best geti nýst til að draga úr þessum launamun.

Ég átta mig fyllilega á því að þetta getur til dæmis haft áhrif á laun hjúkrunarfræðinga svo að við nefnum dæmi. Það er ástæða til að horfa sérstaklega á þær stéttir þar sem illa gengur að manna störf, en þá verður að horfa til launaþáttarins. Það erum við einmitt að gera í ráðuneytinu núna, ekki er einungis verið að stíga það skref sem felst í þessu frumvarpi heldur erum við líka að vinna að þessu á fleiri vígstöðvum.