146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

437. mál
[19:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einu sinni þannig að þó að einhver segi að meira sé minna þá verður það ekkert minna við það; það er enn meira. Framlög aukast mjög mikið til heilbrigðismála og þau munu líka aukast til Landspítala. Varðandi þann þátt sem hv. þingmaður nefndi, um laun, þá er það þannig að bráðabirgðaálagning er birt um opinbera starfsmenn. Upplýsingar um tekjur fjölmargra opinberra starfsmanna, og til dæmis allra alþingismanna, hafa birst í þessu tekjublaði. Það verður jafn opið eftir sem áður. Hins vegar er lögð mikil áhersla á það af hálfu ríkisskattstjóra að um bráðabirgðaálagningu sé að ræða, en hin endanlega skattskrá er ekki gefin út fyrr en töluvert miklu seinna. Hún liggur hins vegar líka opin, en hún vekur bara ekki jafn mikla athygli vegna þess að þá eru upplýsingarnar orðnar þó nokkuð miklu eldri. Ég hef svo sannarlega ekki í hyggju að fara að loka þessari mikilvægu upplýsingalind.