146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu.

[13:34]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Við höfum á undanförnum árum fjölmörg dæmi um samninga við sérfræðilækna. Við getum nefnt sem dæmi samninga sem ríkisstjórnin þarsíðasta gerði við barnatannlækna, sem var ágætissamningur, en tannlækningar á Íslandi eru almennt reknar af einkaaðilum. Við rekum ekki tannlæknastofur ríkisins svo mér sé kunnugt um, en í þeim samningi gerði þáverandi ríkisstjórn engan áskilnað um að menn greiddu sér ekki út neinn arð.

Það sem ég hef verið að vísa til og er væntanlega tilefni þessarar fyrirspurnar hér er að ég sé ekki ástæðu til þess að gera athugasemdir við það að menn sem reka einkafyrirtæki á heilbrigðissviðinu greiði sér út arð ef þeir skila afgangi í rekstri sínum, sama með hvaða hætti það er gert. Það á ekki bara við á þessu sviði heldur á svo mörgum öðrum sviðum þar sem ríkið hefur ákveðið að standa undir fjármögnun viðkomandi opinberrar þjónustu að skilyrði geta skapast til þess að það verði einhver afgangur í rekstrinum. Það kann að vera hausverkur fyrir suma að þessi skilyrði skapist á einhverjum tilteknum sviðum einkarekstrarins, eins og t.d. þegar um er að ræða heilbrigðisþjónustu. Og lausnin sem þeir hafa yfirleitt á þeim vanda er sú að koma í veg fyrir að einkaaðilar starfi á þeim vettvangi. Önnur aðferð er sú að segja: Við ætlum ekki að fara að ríkisvæða viðkomandi starfsemi en við ætlum að banna arðgreiðslur.

Ég held að það sé gamaldags aðferð ef maður horfist ekki í augu við eðlilegt rekstrarumhverfi. Það er bara sjálfsagður og eðlilegur hluti af einkarekstri almennt að ef menn skila einhverjum afgangi geti þeir greitt sér út arð. Eða ætla menn kannski að fara að reyna að rekja það niður í smáatriði hvort arðurinn stafar mögulega af söluhagnaði fasteignar eða af þeim rekstri sem borinn (Forseti hringir.) er uppi af samningi við ríkið samkvæmt þjónustusamningi? Þá eru menn bara komnir út í einhverja endaleysu.