146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu.

[13:37]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er bara gamaldags. Hefur hæstv. ráðherra ekki fylgst með? Nákvæmlega það sem er að hægri stjórninni. Hann vitnaði í norræna módelið, Noreg og Svíþjóð, í þessu viðtali, þar sem hægri stjórnir hafa staðið fyrir auknum einkarekstri og aukinni einkavæðingu. Þetta eru stærstu pólitísku málin sem þar hafa verið og eru fram undan, þ.e. að einkaaðilar nýti sér aðstöðu sína með samningum við ríkið þar sem þeir njóta almannafjár til þess að greiða sér risastórar arðgreiðslur. Hið róttæka tímarit Forbes birti greiningu á því að þetta væri nákvæmlega það sem ógnaði hinu bandaríska heilbrigðiskerfi, þ.e. hvatarnir væru orðnir rangir. Þegar hvatinn væri orðinn sá að heilbrigðisþjónusta væri rekin í ágóðaskyni væri líka meiri hvati til þess að hagræða á hinum röngu stöðum, hagræða þannig að það bitnaði á gæðum þjónustunnar. Hvernig er íslenska heilbrigðiskerfið búið til þess að hafa eftirlit með gæðum? Örlítið gæðaeftirlit, hátt í þúsund aðilar sem hafa samning um að veita heilbrigðisþjónustu og gæðaeftirlit sem má telja á fingrum annarrar, hugsanlega beggja handa.

Þetta er risastórt (Forseti hringir.) pólitískt mál. Ég spyr: Er þetta stefna ríkisstjórnarinnar eða hvað veldur þeirri stefnubreytingu frá því sem við heyrðum frá síðasta hæstv. heilbrigðisráðherra?