146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

arðgreiðslur í heilbrigðisþjónustu.

[13:38]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður tekur eitt mál og setur það í samhengi við önnur lönd þar sem þetta er raunverulegt vandamál. Ég kannast ekki við að arðgreiðslur út úr heilsutengdri starfsemi á Íslandi séu eitthvert þjóðfélagsmein hér á landi. (Gripið fram í.)Það er nefnilega ástæða til að taka alveg sjálfstæða umræðu um þessi mál. Það er hægt að koma víða við. Setjum við sérstaka þröskulda t.d. hjá lyfsölum við hagnaði eða arðgreiðslu? Gerum við það hjá tannlæknum? Gerum við það hjá þeim sem selja lækningatæki? Þetta eru allt aðilar sem starfa á heilbrigðissviðinu.

Ég er einfaldlega sammála hv. þingmanni þegar kemur að því að ef við erum búin að byggja upp heilbrigðiskerfi í einu landi þar sem það eru einkenni á þeirri starfsemi sem þar fer fram að hún er annars vegar rekin fyrst og fremst fyrir opinbert fé og hins vegar eru þar stórkostlegar arðgreiðslur þá sé eitthvað að. Það er enginn ágreiningur við mig um það ef menn eru að reyna að kokka hann upp í þingsal. Ef við værum komin í þá stöðu (Forseti hringir.) væri eitthvað að. Það sem ég held að væri þá fyrst og fremst að er að ríkið væri búið að koma sér í vonda samningsstöðu (Forseti hringir.) og væri að greiða hærra verð fyrir þjónustuna en rök stæðu til.