146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

uppbygging löggæslu.

[13:51]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka af mér ómakið. Ég nefndi ekkert í minni ræðu að það þyrfti að forgangsraða. En það er sjálfsagt að gera það úr því að kallað er eftir því, auðvitað þarf alltaf að forgangsraða.

Þegar kemur að löggæslunni almennt er gott að hafa í huga að gríðarlegar skipulagsbreytingar urðu í löggæslumálum árið 2015 með fækkun lögregluembætta úr 15 niður í níu. Þá var gert ráð fyrir að það gæti tekið þrjú til fimm ár áður en afrakstur þeirra skipulagsbreytinga, m.a. hagkvæmni í rekstri og nauðsynlegur sveigjanleiki lögregluembætta um allt land, kæmi í ljós. Ég bind miklar vonir við að menn séu enn að fóta sig í þessu nýja skipulagi, sem ég vil nefna að hefur mælst mjög vel fyrir hvarvetna á landinu. En það er alveg ljóst að kallað er eftir því að það fé sem verður veitt til viðbótar núna til löggæslumála næstu misserin verði nýtt til að mæta fjölgun ferðamanna, við landamæravörslu og aðstoð og þjónustu við hælisleitendur.