146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

viðbótarkvóti á markað.

[13:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ekki eru mörg ár síðan Samfylkingin var eini flokkurinn sem var með það á stefnuskrá sinni að bjóða út kvóta. En nú er öldin önnur og tveir af þremur stjórnarflokkum voru líka með það þjóðþrifamál á stefnuskrá sinni fyrir kosningar. Beinast liggur við að nota tilboð og tilboðsmarkaði þegar kvótanum eða viðbótartonnum er útdeilt, samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar.

Hæstv. sjávarútvegsráðherra verður tíðrætt um að mikilvægt sé að sátt náist um sjávarauðlindina. Ég tel afar ólíklegt að sátt náist um upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákvarðað á markaðslegum forsendum. Þannig fæst sanngjarnt verð og fólkið í landinu, eigendur auðlindarinnar, getur treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram annan.

Fiskveiðikerfinu þarf að breyta í heild sinni en hægt er að stíga skref í rétta þá átt strax á næsta fiskveiðiári. Þorskkvótinn var aukinn á síðasta fiskveiðiári um 21.000 tonn og á yfirstandandi fiskveiðiári um 5.000 tonn. Samkvæmt nýjustu mælingum hefur þorskstofninn aldrei verið stærri. Það er því líklegt að Hafrannsóknastofnun geri tillögu um viðbótarþorskkvóta fyrir næsta fiskveiðiár og ef ekki fyrir það næsta þá fyrir það þarnæsta. Í öllu falli má búast við viðbótarkvóta á kjörtímabilinu. Ef viðbótarkvótinn yrði boðinn út fengju smærri útgerðir tækifæri til að fá kvóta á lægra verði en stóru útgerðirnar leigja hann á. Núna gengur kílóið á rúmar 200 kr. frá útgerðunum en veiðigjaldið, sem rennur til ríkisins, er aðeins rétt um 11 kr. Einnig fengist reynsla af útboðsleiðinni sem nýta mætti í sáttaumræðum sem hæstv. ráðherra hyggst hrinda af stað.

Ég vil því spyrja hæstv. sjávarútvegsráðherra hvort henni finnist það ekki réttlát og góð tillaga að viðbótarkvótinn, hver sem hann verður, verði boðinn út í stað þess að færa hann þeim útgerðum sem eru með kvóta fyrir.