146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Ívilnanir til nýfjárfestinga.

[14:00]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Frú forseti. Í síðustu viku átti ég hér ágætt samtal við hæstv. ráðherra iðnaðar um United Silicon í Reykjanesbæ. Ég hef núna svipað erindi, þ.e. það tengist United Silicon og reyndar líka PCC á Bakka ef út í það er farið.

Í lögum um ívilnanir til nýfjárfestinga á Íslandi segir í 5. gr., um skilyrði fyrir veitingu ívilnana, með leyfi forseta:

„Við mat á því hvort veita eigi ívilnun til nýfjárfestingar samkvæmt lögum þessum skal eftirfarandi skilyrðum vera fullnægt:“

Þar stendur undir i-lið:

„að um nýfjárfestingu sé að ræða og að tæki og búnaður sem kemur til vegna hennar sé nýr eða nýlegur og uppfylli skilyrði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir“.

L-liður, með leyfi forseta:

„að starfsemi félags sem nýtur ívilnunar sé að öllu leyti í samræmi við íslensk lög og stjórnvaldsfyrirmæli og starfsemin brjóti ekki í bága við almennt velsæmi“.

Því langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort honum sýnist að verksmiðja United Silicon í Reykjanesbæ muni geta uppfyllt þessi ákvæði laganna sem ég las upp.