146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

ívilnanir til nýfjárfestinga.

[14:02]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er rétt sem þar kemur fram varðandi 5. gr. Við undirbúning verkefnisins staðhæfði United Silicon að félagið legði áherslu á að nota bestu fáanlegu tækni til að lágmarka loftmengun, jarðvegsmengun og vatnsmengun og stunda rekstur í samræmi við umhverfisrekstrarleyfið sem gefið yrði út til félagsins, sem svo var gert.

Hins vegar er það Umhverfisstofnun sem veitir verksmiðjunni starfsleyfi og Umhverfisstofnun hefur eftirlit með því að félagið starfi innan ramma þessa og ramma almennra laga á sviði umhverfismála, samanber einnig heilbrigðisnefnd sveitarfélagsins. Umhverfisstofnun er sú stofnun sem hefur heimildir til að grípa til ráðstafana og viðurlaga ef það er ekki gert.

Fjárfestingarsamningurinn kemur í rauninni ekki inn á þetta eða veitir neina afslætti varðandi þessar kröfur eða viðurlög. Ef viðvörunum eða sektum er ekki sinnt þá er það væntanlega Umhverfisstofnun sem tekur ákvörðun um næstu skref. Þar af leiðandi er það hvorki ég sem ráðherra né ráðuneytið sem kemur inn á það með beinum hætti heldur er það Umhverfisstofnun.