146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:17]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda umræðuna. Ég ætla rétt að tæpa á tvennu, annars vegar samþættingunni og hins vegar opnum gögnum almennt. Það er í þessu eins og í svo mörgu öðru að við rekumst trekk í trekk á það hve samþætting hins opinbera er lítil. Eins og við höfum áður nefnt hér á þingi eru ellefu ráðuneyti rekin undir ellefu kennitölum sem veldur því m.a. að hreyfanleiki starfsfólks innan Stjórnarráðsins er minni en æskilegt væri. Þar að auki höfum við tugi ríkisstofnana sem sitja á gögnum á ólíku sniði og eru misviljugar að láta gögnin af hendi til sameiginlegrar notkunar þó að þau hafi verið unnin fyrir opinbert fé.

Varðandi opnu gögnin almennt þá held ég að það velkist ekki nokkur í vafa um að aukið aðgengi að gögnum án gjaldtöku sé af hinu góða eins og sýndi sig þegar þáverandi hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra gerði gögn Landmælinga Íslands gjaldfrjáls í janúar 2013. Notkun á þeim jókst stórlega, vægt til orða tekið, fastir notendur fóru úr einu hundraði upp í 2.600 og gagnamagnið hundraðfaldaðist sem var hlaðið niður af vef Landmælinga. Landmælingar hafa, í samræmi við verksvið sitt, framkvæmt svokallaða grunngerðarkönnun annað hvert ár þar sem stofnunin fer yfir sviðið og hún komst að því síðast 2015 að hjá hinu opinbera væru 32 stofnanir sem samanlagt hefðu undir höndum 326 gagnasett sem ættu erindi inn í þennan opna gagnagrunn Landmælinga, þó ekki væri nema bara til þess að við myndum uppfylla skilyrði INSPIRE-tilskipunar um samræmda notkun landupplýsinga. Þau gögn sitja nú hvert á sínum stað og bíða þess að einhver skeri á hnútinn hjá hinu opinbera og þau fari að flæða inn í opna notkun, almenningi til heilla.