146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:28]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegur forseti. Ég vil nefna einn af þeim áherslupunktum sem hv. þingmaður nefndi sem er opin gögn. Ég játa að ég er stundum dálítið efins þegar ég heyri orðin heildstæð stefnumótun. Niðurstaða slíkrar vinnu getur oft orðið einhver einskiptisaðgerð, einhver athöfn sem er haldin, einhver heimasíða sem er opnuð. Við erum með þannig síðu, opingogn.is, og þar eru 43 gagnasöfn. Hagstofa Evrópusambandsins, Eurostat, er með um 6.000, þótt það sé ekki að öllu leyti sambærilegt. Ég er ekki endilega þeirrar skoðunar að það sem helst þurfi sé að sanka saman öllum opinberum gögnum á einn stað, þetta snýst miklu frekar um það að þær stofnanir sem sýsla með gögn ættu að koma sér upp góðum vöruhúsum fyrir gögnin sín og síðan ætti að gera þau vöruhús aðgengileg. Til þess að svo verði þarf þrennt að koma til.

Í fyrsta lagi þarf að vera auðvelt fyrir forrit að komast að því hvaða gögn eru til staðar. Ekki: Við höldum fund með ykkur og kennum ykkur á kerfið.

Í öðru lagi þurfa gögnin að vera á formi sem er auðvelt fyrir forrit að vinna með. Ekki: Jói setur nýtt handunnið excel-skjal í Dropboxið næsta mánudag.

Í þriðja lagi þurfa réttindamála að vera á hreinu. Gögnin þurfa ekki bara að vera ókeypis heldur þarf að vera hægt að endurbirta þau og endurnýta þau. Ekki þannig að það þurfi að sannfæra forstöðumann einhverrar stofnunar um að nýting gagnanna verði honum eða henni að skapi.

Sérstaklega þegar kemur að því síðastnefnda þyrfti kannski einhverjar lagabreytingar til. Það er til dæmis þannig að flest þau gögn sem bandaríska alríkið býr til eru almenningseign, „public domain“, og um þau gildir ekki höfundaréttur. Það fyrirkomulag er eitthvað sem við ættum að taka okkur til fyrirmyndar.