146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu, sem kann að virðast tæknileg þeim sem eru ekki á kafi í umræðu um kerfislæga þætti, en er eigi að síður gríðarlega mikilvæg fyrir bæði almenning í landinu og rekstur ríkisins. Mig langar að nota mínar tvær mínútur hér til að segja, af því að ég hjó eftir því að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði áðan að tillaga málshefjanda, hv. þm. Smára McCarthys, um tæknistjóra ríkisins, væri til skoðunar í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, að ég held að slík tillaga gæti haft í för með sér mjög jákvæð áhrif fyrir stefnumótun ríkisins almennt í þessum málum. Það sem ég tel að skipti þar máli er að stofnanir ríkisins tala ekki endilega að saman sín á milli og Stjórnarráðið talar ekki endilega við stofnanir, þannig að einfaldir hlutir, eins og til að mynda verkefni sem ég get nefnt sjálf og hef þar af leiðandi persónulega reynslu af, sem var að innleiða notkun frjáls og opins hugbúnaðar í framhaldsskóla, geta reynst þungir í vöfum, af því að ákveðnir múrar eru á milli stofnana annars vegar og Stjórnarráðsins hins vegar. Það hefur líka þótt vera erfitt, t.d. fyrir Stjórnarráðið, að innleiða frjálsan og opinn hugbúnað og þá eru öryggisrök höfð á lofti sem þó ættu að vera fullkomlega yfirstíganleg.

Til þess í senn að spara, því að notkun þessa hugbúnaðar hefur oft reynst gríðarlegur sparnaður á fjármunum, en líka til að tryggja aukna nýsköpun í því hvernig við hugum að tölvumálum og tölvukerfum ríkisins, tel ég að það væri mjög áhugavert að afgreiða þá tillögu sem hér hefur verið lögð fram — ég hvet til þess að hún fái að komast á dagskrá — og um leið að tryggja þá nauðsynlegu samhæfingu sem hefur verið rætt um þannig að þjónustan sé aðgengileg fyrir almenning, að öryggis sé gætt, að gæði séu í þeim kerfum sem við erum að nýta og um leið að þetta sé sem allra mest opið. Ég tel að við getum gert miklu betur þegar kemur að samhæfingu innan kerfisins og milli kerfa og til þess held ég að mikilvægt sé að fá mjög skýra yfirstjórn á þeim málum og að þar séu þessi viðmið, gagnsæi og frelsi, líka höfð að leiðarljósi ásamt því sem ég nefndi áðan.