146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

tölvukerfi stjórnvalda.

[14:33]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er nú eiginlega komin út um víðan völl, þykir mér, og kannski má segja að þær áherslur sem eru lagðar fyrir hér í upphafi séu ekki mjög skýrar og geti farið út um víðan völl. Þó vil ég segja það að á þeim 60 árum sem íslenska ríkið hefur tekið þátt í hugbúnaðarnotkun og gagnagrunnanotkun, allar götur frá stofnun Þjóðskrár, hefur margt gengið býsna vel og vil ég þar sem dæmi nefna það sem er nýafstaðið hjá allflestum í þessu samfélagi, þ.e. að telja fram til skatts. Þetta var mikill höfuðverkur á flestum heimilum í nokkrar vikur en nú er þetta nokkurra mínútna verk hjá hinum venjulega einstaklingi. Það er hins vegar spurning um það hvort þau kerfi sem eru hér í notkun, hvort heldur er hjá Hagstofu, Seðlabanka, Þjóðskrá eða víðar, séu nægjanlega aðgengileg þannig að hægt sé að tengja þau öðrum kerfum, en um það skal ég ekki dæma. En það er því miður þannig að þegar talað er um hagræðingu virðist spretta fram af því ný þörf þannig að hagræðingin skilar sér því miður ekki í lægri kostnaði heldur til að svara þessari nýju þörf sem leiðir af sér nýjan kostnað.

Það var nefnt hér í upphafi að í þarfagreiningu og í kostnaðaráætlunum í hugbúnaðarkerfum hafi yfirleitt 70% verkefna farið umfram kostnað. Það kann að vera rétt en var þá ekki þarfagreiningin óskhyggja í upphafi? Þó vil ég nefna eitt dæmi sem kemur kannski ekki beint inn á ríkið en tengist því þó, þ.e. fjármálamarkaði: Kauphöllin og Verðbréfaskráning Íslands, þessi tvö fyrirtæki, hafa leitt af sér verulega lækkun kostnaðar á fjármálamarkaði en því miður er það grunur minn að sá lækkaði kostnaður hafi ekki skilað sér til neytenda. Öll hagræðing á náttúrlega að skila sér beint í vasa neytenda á þessu sviði sem og öðrum.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.